fimmtudagur, september 08, 2005

 

Ó, New Orleans!

Ó, New Orleans, yndislega borg. Ég græt í hjartanu þegar ég sé myndir af mannlausum götum sem ættu að iða af lífi og lífsglöðu, brosandi fólki. Það vill svo til að ég var í New Orleans fyrir nákvæmlega fjórum árum, um mánaðarmótin ágúst/september 2001 og þessi borg heillaði mig algerlega upp úr skónum. Allt glaðlega fólkið sem tók á móti okkur er ógleymanlegt og nú hvarflar hugurinn æði oft til þess hvernig komið sé fyrir því. Börnin kátu sem sungu fyrir okkur og með okkur, fólkið sem stjórnaði gospelnámskeiðinu og allt skemmtilega fólkið sem tók þátt í námskeiðinu og allir sungu saman um kvöldið. Hver hafa örlög þeirra orðið? Hvernig stendur á því að ríkasta þjóð í heimi lætur þetta fara svona? Hvers vegna var ekki búið að styrkja varnargarðana þar sem vitað var fyrir löngu að þeir stæðust ekki fellibyl af þessum styrkleika? Hvers vegna var dregið svona að senda hjálp á staðinn? Getur það hugsanlega verið af því að þarna eru 80% íbúanna svartir og tekjulágir? Svari nú hver sem veit, en ég held að það gildi ekki það sama um ríka, hvíta John og svarta, fátæka John. Sveiattan. Ungi hótelstarfsmaðurinn sem hjálpaði mér að fá lækni þegar moskítóbitin voru farin að líta illa út var einmitt svartur og hét John. Hvað skyldi hafa orðið af honum? Hann sem var svo kurteis og þægilegur, eiginlega eins og góður frændi að hjálpa frænku gömlu.
Ég vona bara að lögð verði áhersla á uppbygginguna og brátt fari tónlistin að fljóta aftur á Bourbon Street, þar sem jassinn hljómaði og líka blues og gospel eða jafnvel rokk og alls staðar var hægt að setjast inn og hlusta á lifandi flutning. Og markaðurinn við Canal Street er heill kafli út af fyrir sig með allri sinni fjölbreytni. Hvað er New Orleans án kennimerkja sinna?

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?