þriðjudagur, september 13, 2005

 

Ættarsagan

Ættarsagan fór í prentsmiðjuna í gær og þungu fargi af okkur létt sem mest hafa staðið í þessu. Við Rauðholtsbóndinn tókum góða törn á sunnudaginn, hann þó heldur lengri þar sem ég var laus allra mála um áttaleytið en hann víst ekki fyrr en á miðnætti. Nú segja þessar ágætu konur í prentsmiðjunni að þær verði búnar með umbrotið fyrir vikulok svo þetta er allt á góðri leið og barnið loksins að fæðast eftir nokkurra ára meðgöngutíma. Enda þótt bókin líti dagsins ljós í þessum mánuði, ef ekkert fer úrskeiðis, verður útgáfuteitið ekki fyrr en í byrjun nóvember þegar Rauðholtsbóndinn kemur næst í bæinn. Annars verð ég vist að hætta að titla hann bónda þar sem hann flytur til Egilsstaða eftir mánuð og sonur hans tók við búinu fyrir þremur árum ef ég man rétt. En, hvað um það, við bíðum öll spennt eftir að sjá bókina!
Það var nú sjálfsagt ekki í tilefni af þessu en í gærkvöldi fór ég á fatakynningu og kom heim með æðislegan ólífugrænan leðurjakka sem ég veit að á eftir að verða uppáhaldsflík hjá mér! En ég get svo svarið að nú er ég hætt þessum spandans, ekki meiri fatakaup fyrr en næsta vor!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?