laugardagur, september 06, 2008

 

Hamagangur á Hóli

Nú fer að styttast í það að ég haldi af stað til Sardiníu og það er svo margt sem ég þarf að klára áður en ég fer að ég má halda vel á spöðunum. Og svo reiknuðum við stöllurnar auðvitað ekki með þróun gengisins þegar við ákváðum þennan áfangastað í júní í fyrra. Reyndar borguðum við flugið frá London til Alghero strax í mars og sömuleiðis helminginn af íbúðinni og svo fáum við ókeypis gistingu í London svo það má eiginlega segja að við sleppum nokkuð vel, en ég er hrædd um að ég haldi nokkuð fast í budduna - eða öllu heldur kortið. Ég kvarta nú samt ekki mikið yfir hlutskipti mínu! En þegar ég kem heim hætti ég allavega að flækjast í bili.

Hins vegar er ég eiginlega að verða brjáluð á þessu bananalýðveldi okkar. Ljósmæður í verkfalli -já, þingmenn góðir, hver tók á móti ykkur? Og væntanlegt frumvarp um bætur til handa Breiðuvíkurdrengjunum er til háborinnar skammar. Á sama tíma erum við að ausa peningum í alls konar andskotans vitleysu svo sem Kínaferðir menntamálaráðherra með föruneyti og heræfingar og sitt hvað fleira. En svo er ekki hægt að borga þeim sem vinna bráðnauðsynleg störf eins og ljósmæðrunum mannsæmandi laun, enda þótt þær hafi varið mörgum árum í að mennta sig til þess, hvað þá heldur þeim sem vinna almenn umönnunarstörf. Ja, svei. Ég verð að segja að mér finnst þessi ríkisstjórn ekki hótinu betri en sú sem ríkti á undan henni og Geir Haarde er kominn með sama fýlusvipinn og forveri hans. Ég er reyndar blessunarlega laus við að hafa kosið þessa flokka, en ef stjórnarandstaðan tekur ekki betur við sér held ég hreinlega að ég skili auðu ef ekkert breytist fyrir næstu kosninar.

Þar hafið þið það og hana nú.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?