laugardagur, september 27, 2008
Ferðalok að hausti
Jæja, sú gamla er komin heim aftur eftir mikla ævintýraferð til Sardiníu með viðkomu í Lundúnaborg í báðum leiðum. Ég ætla svo sem ekki að skrifa neina ferðasögu, en Sardinía er auðvitað yndislegur staður og þessi litli bær, Santa Teresa di Gallura, þar sem við vorum þessa viku var afar notalegur. Íbúðin var vel staðsett, rétt við miðbæinn, rétt við höfnina og ekki langt á ströndina þegar ekki er farin einhver fjallabaksleið eins og við álpuðumst til að gera einu sinni. Og við fórum í "Miðjarðarhafssiglingu" yfir til Korsíku í lítinn bæ sem heitir Bonifacio og ég heillaðist gjörsamlega af. Innsiglingin eins og að vera komin í sjóræningjamynd og einhvern veginn átti ég von á að Johnny Depp birtist á hverri stundu með lepp fyrir auganu! Verðlagið þar var líka mun hagstæðara en á Sardiníu og merkilegt nokk voru allir Frakkarnir sem við áttum samskipti við yfirmáta kurteisir og elskulegir. Það hefur nefnilega verið sagt um Frakka eins og Íslendinga að þeim sé ekki gefin sérlega mikil þjónustulund!
London var svo auðvitað frábær eins og venjulega. Kvöldið áður en við fórum heim buðum við vinkonurnar Ann að sjá Mama Mia (söngleikinn), en Ann skaut yfir okkur skjólshúsi meðan við dvöldum í London og var í alla staði afar elskuleg. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki skemmt mér betur í langan tíma. Ég hafði satt að segja engan áhuga á að sjá kvikmyndina sem allir eru að dásama, en núna dreplangar mig á sing-along sýningu og þenja lungun. En ætli ég láti nokkuð verða af því, það er annað að standa upp í leikhúsi þar sem enginn þekkir mann og dansa og syngja eins og vitleysingur en að fremja slíkt hér heima þar sem ég gæti þekkst!
En ævintýrin héldu áfram að elta okkur. Þegar við vorum búnar að tékka okkur inn á Heathrow á þriðjudagskvöldið og vorum í biðröð í öryggiseftirlitinu varð allt í einu uppi fótur og fit og öllum skipað að fara út eins og skot. Þegar við Ella vorum að skunda út mætti okkur svo ábúðarfullur maður sem mundaði sjálfvirka hríðskotabyssu eins og í bíómynd og okkur fannst hann nánast miða henni á okkur. (Sem sagt; fyrst sjóræningjamynd og síðan hasarmynd.) Svo voru allir reknir út á hlað, líka þeir sem voru að tékka inn, og þar biðum við í svona kortér eða tuttugu mínútur þar til við fengum að fara inn aftur. Heimferðin gekk síðan samkvæmt áætlun og ég held að ég hafi meira að segja sofið í allt að klukkutíma, allavega fannst mér hún taka ótrúlega stuttan tíma. Kom heim klukkan að ganga tvö og var komin í rúmið rúmlega tvö.
Nú hef ég fengið nóg af ferðalögum í bili, ákvað meira að segja að sleppa haustferð BPW í þetta sinn þótt ekki sé farið lengra en austur í Grímsnes!
London var svo auðvitað frábær eins og venjulega. Kvöldið áður en við fórum heim buðum við vinkonurnar Ann að sjá Mama Mia (söngleikinn), en Ann skaut yfir okkur skjólshúsi meðan við dvöldum í London og var í alla staði afar elskuleg. Það er skemmst frá því að segja að ég hef ekki skemmt mér betur í langan tíma. Ég hafði satt að segja engan áhuga á að sjá kvikmyndina sem allir eru að dásama, en núna dreplangar mig á sing-along sýningu og þenja lungun. En ætli ég láti nokkuð verða af því, það er annað að standa upp í leikhúsi þar sem enginn þekkir mann og dansa og syngja eins og vitleysingur en að fremja slíkt hér heima þar sem ég gæti þekkst!
En ævintýrin héldu áfram að elta okkur. Þegar við vorum búnar að tékka okkur inn á Heathrow á þriðjudagskvöldið og vorum í biðröð í öryggiseftirlitinu varð allt í einu uppi fótur og fit og öllum skipað að fara út eins og skot. Þegar við Ella vorum að skunda út mætti okkur svo ábúðarfullur maður sem mundaði sjálfvirka hríðskotabyssu eins og í bíómynd og okkur fannst hann nánast miða henni á okkur. (Sem sagt; fyrst sjóræningjamynd og síðan hasarmynd.) Svo voru allir reknir út á hlað, líka þeir sem voru að tékka inn, og þar biðum við í svona kortér eða tuttugu mínútur þar til við fengum að fara inn aftur. Heimferðin gekk síðan samkvæmt áætlun og ég held að ég hafi meira að segja sofið í allt að klukkutíma, allavega fannst mér hún taka ótrúlega stuttan tíma. Kom heim klukkan að ganga tvö og var komin í rúmið rúmlega tvö.
Nú hef ég fengið nóg af ferðalögum í bili, ákvað meira að segja að sleppa haustferð BPW í þetta sinn þótt ekki sé farið lengra en austur í Grímsnes!