sunnudagur, desember 14, 2008

 

Kreppujól eða þannig?

"Við skulum vona að við finnum ekki meira fyrir kreppunni en við fundum fyrir góðærinu," varð eiginmanninum að orði áðan. En eftir að hafa athugað okkar gang sáum við að það væri líklega tilgangslaust að vonast eftir því. Við ætlum samt ekki að leggjast í þunglyndi enda engin ástæða til þess og jólin verða haldin eins og venjulega á Tjarnarbóli. Það eina sem angrar mig eru verkefnin sem ég þarf að koma frá mér fyrir jól, ég er hrædd um að eins og venjulega mæti smákökubakstur og hreingerningar afgangi, en eins og ég sagði við frændur mína sem voru hér í kaffi í gær þá bakaði ég í fyrra. Og þó? Ég held reyndar að ég hafi ekkert bakað í fyrra. Og við höfum enn ekki ákveðið hvað verður í jólamatinn. Rjúpur? Dádýrasteik? Hreindýr? Kengúra? Allt hljómar þetta vel en auðvitað ræðst ákvörðunin af því hvað okkur tekst að ná í. Jólagjafirnar eru komnar í hús, bara eftir að pakka þeim og senda þær sem þarf að senda og ég er langt komin með jólakortin. Útiserían fór á svalirnar í dag, og ég er svolítið byrjuð að skreyta en lokapunkturinn verður svo á Þorláksmessu og þá verður öll íbúðin komin í jólabúning.
En vinnan verður að ganga fyrir svo lífið geti gengið sinn vanagang í janúar.
Ef ég læt ekki heyra aftur frá mér fyrir hátíðarnar óska ég ættingjum og vinum sem þetta lesa gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs og að lokum legg ég til að aðalbankastjóri Seðlabankans verði sendur í geðrannsókn.
Annað var það ekki núna, lifið heil.

P. S. Ég viðurkenni að þetta síðasta er ljótt og ekki í anda jólanna.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?