miðvikudagur, apríl 26, 2006

 

Af fermingu og fleiru

Sonarsonur nr. 2 fermdist borgaralega á sunnudaginn var. Það var falleg athöfn í Háskólabíói sem minnti mig þó ákaflega mikið á skólaútskrift, en áhrifamikil og hátíðleg athöfn engu að síður. Á eftir var slegið upp stórveislu sem tókst að ég held með ágætum, ég vona að fermingarbarn og foreldrar hafi verið ánægð. Þau urðu auðvitað að brenna aftur norður á sunnudagskvöldið og ég get ekki ímyndað mér annað en að þau séu enn dauðþreytt eftir þessa törn. Það er nú best að fara að hringja og athuga hvernig ástandið er í Hafnarstræti 35. Og nú eigum við bara eitt barnabarn innan við fermingu. Samt er ég nú barasta hreint ekkert svo gömul!
Og nú er ég nýkomin heim af kóræfingu - stórtónleikar á sunnudaginn kemur í Langholtskirkju klukkan 16.00 og 18.00. Æfingin var búin klukkutíma fyrr en ég reiknaði með og ég er eiginlega himinlifandi yfir að vera komin heim og eiga svona mikinn hluta kvöldsins eftir. Og ég mæli með þessum tónleikum, það er frábært prógram og auk allra kóranna eru að mig minnir einir 7 einsöngvarar! Verst að í kvöld fannst mér ég vera eitthvað svo óörugg í Litlu hryllingssyrpunni, sem er eitt það sem mér finnst skemmtilegast að syngja!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?