þriðjudagur, apríl 18, 2006

 

Að páskum loknum

Þá eru páskarnir liðnir og mikið var gott að hvíla sig frá daglegu amstri. Lífið hérna á Tjarnarbóli var sem betur fer tíðindalítið og áfallalaust. Á skírdag fórum við hjónin í okkar árlega páskabíltúr um Suðurlandsundirlendið, fyrst á myndlistarsýningu á Stokkseyri og enduðum svo að venju í Eden á sýningu Ingunnar Jensdóttur. Fastir liðir eins og venjulega. Og það er auðvitað líka fastur liður að kaupa páskaliljur í Eden og ég var ekkert að bregða út af honum núna, tók einhvern vönd með lítið útsprungnum blómum af handahófi af borðinu og honum var svo skipt í tvo vasa þegar heim var komið. Það var svo ekki fyrr en að kvöldi föstudagsins langa að ég tók eftir því að á einum stilknum voru tvö blóm, sem sagt tvíblóma páskalilja. Merkilegt fyrirbæri sem ég hef ekki rekið mig á áður.
Og nú er ég að koma heim af kóræfingu og sannast sagna alveg dauðþreytt. Ég er enn ekki alveg nógu örugg í nokkrum lögum, en ætla samt að leyfa mér að sleppa æfingunni sem verður á morgun því að það verða líka tvær æfingar í næstu viku og þá næ ég þessu alveg, mig vantar bara herslumuninn. Og svo er víst líka eins gott að læra textana!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?