föstudagur, febrúar 09, 2007

 

Af gefnu tilefni

Af gefnu tilefni og því sem ég skrifaði síðast er rétt að taka fram að ég hef aldrei verið í Framsóknarflokknum.
Annars er allt gott en ekkert nýtt að frétta á Tjarnarbóli. Fullt að gera, sumt skemmtilegt en annað miður skemmtilegt. Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi Rockys eða Sylvesters Stallone en hef nú þann heiður að þurfa að þýða fjórar Rocky myndir í einum rykk (2, 3, 4 og 5) og reyndar er hægt að sjá eitthvað skemmtilegt við þær allar, sérstaklega mynd nr. 4 sem er svo hrikalega amerísk að það hálfa væri nóg. Þær eru það reyndar allar þannig að það má alltaf brosa út í annað. Annað kvöld erum við vinkonurnar að fara í mat til Ellu og svo verður spilað á eftir. Það verður ekki leiðinlegt. Í dag ætlaði ég að kaupa mér hlébarðaskó til að vera eins og Dorrit en því miður fann ég enga sem féllu að mínum sérstaka smekk.
Eiginmaðurinn sagði mér í gær frá fólki sem hélt þorrablót með gamaldags, íslenskum mat, kótelettum í raspi og okkur fannst þetta svo bráðsnjöll hugmynd að í kvöld ætlum við að hafa þorrablót með kótelettum í raspi.
Hef ekki annað að segja í bili.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?