þriðjudagur, júní 26, 2007

 

Komin heim með slitna skó

Komin heim á Tjarnarból eftir frábært tveggja vikna frí. Sumarbústaðurinn okkar á Sjálandi var hreint frábær - langt úti í skógi og fjarri heimsins glaumi. Til að komast í heimsins glaum þurftum við fyrst að ganga einn og hálfan kílómetra upp á veg til að ná strætó til Frederiksværk(hann gekk á klukkutíma fresti), þaðan var svo hægt að taka sveitalestina til Hilleröd en frá Hilleröd var hægt að taka S-lestir í allar áttir. Einn daginn fórum við til Helsingör, annan dag skoðuðum við nýlistasafnið í Louisiana sem er rétt við Humlebæk og svo tókum við einn dag í höfuðborgarferð, annað var ekki hægt. Sem sagt frábær ferð í alla staði þrátt fyrir ítrekaðar ferðir í apótekið í Frederiksværk. Trúlega höfum við verið "the talk of the town" í þessum litla bæ og fólk velt fyrir sér hvern fjandann þessar íslensku kerlingar væru að gera þarna í skóginum - trúlega í wrestling öll kvöld fyrst við mættum krambúleraðar í apótekið dag eftir dag. Eini gallinn var að fluginu heim seinkaði rækilega, við sátum á Kastrup til klukkan tvö um nóttina að dönskum tíma eða miðnætti að íslenskum og ég var ekki komin heim fyrr en um fimmleytið að morgni þjóðhátíðardagsins. Síðan þurfti ég nauðsynlega á þjónustu tannlæknavaktarinnar hérna heima að halda, svo við lögðum ekki af stað austur fyrr en klukkan þrjú á sunnudaginn og vorum komin að Hjaltastað klukkan hálfeitt um nóttina.
Og það var sko ekkert slor að vera á Hjaltastað - þetta er alger herragarður og frábær í alla staði. Æðislegt að eiga kost á þessu á hverju sumri - og á öðrum tíma ársins ef það dettur í okkur að skreppa austur. Húsið er stórt og hlýtt, fín aðstaða og nóg svefnpláss, þegar mest var í heimili þessa viku sváfum við tíu í húsinu. Hal frændi kom svo með flugi til Egilsstaða 21. júní og við gerðum okkar besta til að sýna honum æskuslóðir föður hans. Á laugardaginn ókum við síðan til Akureyrar þar sem við gistum eina nótt í góðu yfirlæti og ókum svo suður daginn eftir og skiluðum honum austur í Ölfus til Björns og Ingu (það er ekki hægt að kalla sjötugan mann Bangsa) á sunnudagskvöldið. Í kvöld erum við hjónin svo að fara þangað aftur með Sævar frænda, sem kom frá Noregi í gær - þeir verða að fá að hittast frændurnir og syngja saman Stóð ég úti í tunglsljósi.
Og um næstu helgi er ættarskrallið í Fannahlíð. Maður verður rétt búinn að jafna sig þegar lagt verður af stað á ný, en það verður nú bara ein nótt í tjaldi. Vonandi að þessi veðurblíða haldist fram yfir helgina.
Lifið heil!

föstudagur, júní 08, 2007

 

Ég fer í fríið, ég fer í fríið...

Eftir fáeinar mínútur slekk ég á tölvunni og legg af stað í sumarsól á Sjálandi! Við Ella fljúgum til Köben eftir fáeina tíma og þar hittir Vallý okkur. Á morgun verður síðan haldið í bústaðinn í Frederiksværk, og þar mun mikið vera spjallað og spilað, og farið í gönguferðir og allt mögulegt gert og kannski sitthvað ómögulegt.
Þegar heim kemur legg ég umsvifalaust land undir fót - eða veg undir bíldekk - og held austur á Hérað þar sem ég mun dvelja með ættmennum í vikutíma.
Meira að fríi loknu.
Megi sólin verma hug ykkar og hjarta þótt hún skíni kannski ekki alltaf í heiði!

This page is powered by Blogger. Isn't yours?