fimmtudagur, mars 13, 2008

 

Furðulegur fjandi og góður endir

Það er furðulegt hvað sumt fólk sem ég þekki ekki neitt getur farið í fínu taugarnar á mér og rétt áðan voru tveir slíkir unglingspiltar að láta dæluna ganga á Skjá einum. Það sem bjargaði mér var að síminn hringdi og ung stúlka spurði eftir eiginmanninum. Ég spurði á móti, kannski svolítið hryssingslega, hvort hún væri að selja eitthvað og ætlaði að benda henni á að það væri merkt við okkur í símaskránni að sölufólk mætti ekki hringja. Stúlkan afsakaði sig og sagðist vera að hringja frá VÍS og ætla að bjóða okkur uppfærslu á tryggingunum okkar. Þá sljákkaði í mér, henni var líklega heimilt að hringja þar sem við erum í viðskiptum við fyrirtækið og þar sem við höfum einmitt verið að ræða um að fá okkur víðtækari tryggingu, spurði ég bóndann hvort hann vildi ekki ræða við stúlkuna. Hann baðst hins vegar undan og bað mig að sjá um málið. Og það þarf ekki að orðlengja það að stúlkan var ákaflega viðræðugóð og nú höfum við fengið mun víðtækari tryggingu en við höfðum, þurfum m.a. ekki að ferðatryggja okkur sérstaklega sem kemur sér vel fyrir fólk með ólæknandi ferðabakteríu, og auk þess var innbústryggingin hækkuð í viðunandi horf. En svo er auðvitað óvíst ef eitthvað kemur fyrir að maður fái nokkuð út úr tryggingunum, en den tid den sorg. Það er alltént þægilegt að vita af því að við séum sæmilega tryggð. Maður tryggir ekki eftir á, sagði maðurinn.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?