þriðjudagur, mars 25, 2008

 

Að páskum afstöðnum

Það fór lítið fyrir hátíðleika páskanna hér á Tjarnarbóli. Eiginmaðurinn að skrifa ritgerðir og afla heimilda í þær og frúin að vinna á fullu. Ég mannaði mig ekki einu sinni í að bjóða þeim hluta fjölskyldunnar sem býr hér í nágrenni við okkur í mat yfir hátíðina, enda sömu annirnar á þeim bæ. Þar að auki kom sonardóttirin ekki frá Svíþjóð fyrr en laugardaginn fyrir páska, en hún verður nú heima í þrjár vikur svo það ætti að gefast tími til að ná öllum saman. Ég vildi bara frekar gera það fyrr en seinna - faðir hennar fer held ég af landinu upp úr mánaðamótunum, man ekki alveg hvenær. En þetta voru sem sagt hinir ágætustu páskar, það er óþarfi að vera alltaf með tilstand, við höfðum það gott hérna hjónakornin. Það eina sem olli vonbrigðum var páskalambið sem við freistuðumst til að kaupa. Þannig er að við erum frekar tortryggin út í forkryddað kjöt en um daginn freistuðumst við til að kaupa einiberjakryddlegið lambalæri sem var aldeilis frábært. Og í bjartsýniskasti út af því keyptum við kryddlegið páskalamb, lítið læri sem átti að duga vel í matinn handa okkur einu sinni og nógur afgangur í eitthvað létt daginn eftir. En þvílíkur vibbi sem þetta krydd var, alveg ferlega væmið og klígjulegt. Það var sem sagt meira en nógur afgangur, en af því að ég er alin upp við að það sé ljótt að henda mat var restinni auðvitað stungið inn í kæliskáp og verður þar trúlega þar til allt fer að mygla því það er í lagi að henda skemmdum mat. Ég skil ekki af hverju góður matur er vísvitandi gerður vondur. Eitt er alveg öruggt, það varður langt þangað til ég kaupi eitthvað forkryddað aftur.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?