föstudagur, júlí 24, 2009
Að ættarmóti loknu
Ég vil bara láta alla vita að um síðustu helgi var ég á ættarmóti Rauðhyltinga austur á Héraði. Án þess að vilja gorta neitt sérstaklega mikið verð ég að segja að þessir ættingjar mínir eru með skemmtilegra fólki sem ég þekki svo þetta var einkar velheppnuð samkoma - 346 manns mættir. Það eina sem hægt væri að kvarta yfir var veðrið - en þá var bara að klæða sig rétt og una því að búa á Íslandi. Við hjónakornin ásamt flestum af fjölskyldunni vorum í ljómandi góðu húsi ekki langt frá mótsstaðnum, einungis eldri sonurinn og hans indæla frú þraukuðu í tjaldi allan tímann. Held samt að þeim hafi þótt gott að flytja sig til okkar upp í Dali II að ættarmóti loknu. Ég gæti trúað að þarna hafi verið sett Íslandsmet í kjötsúpueldun því sameiginlegi kvöldverðurinn á laugardagskvöldið var íslensk kjötsúpa, það voru snillingar sem löguðu hana og geri aðrir betur en að elda kjötsúpu fyrir 300 manns. Svo voru líka fengnir pítsuofnar svo að börn og matvant fólk gæti fengið sér pítsu ef kjötsúpan féll ekki í kramið. En það er einstaklega gott að vera hluti af svona hópi. Bestu þakkir, kæru ættingjar.