sunnudagur, mars 20, 2005

 

Frá mörgu að segja

Vá, maður, ég ætlaði aldrei að komast inn á síðuna mína til að skrifa, eitthvað hafði ruglast í systeminu og lykilorðið mitt var ekki tekið gilt, en nú er allt í þessu fína.
Sem sagt, fyrir rúmri viku skruppum við í menningarferð til Akureyrar, sem var býsna skemmtileg en það var bara svo fj. kalt að við vorum minna úti en ætlunin var. Það var auðvitað tekið á móti okkur með kostum og kynjum, wined and dined að sið góðra gestgjafa. Svo var farið í Freyvang á laugardagskvöldið að sjá Taktu lagið Lóa og það var virkilega fín sýning. Daníel fór auðvitað á kostum eins og hans er von og vísa (ég efaðist aldrei um það) og María sem leikur Lóu var alveg hreint frábær, enda vinkona Heiðu kórformanns Gospelsystra og auðvitað á hún ekki nema afbragðssöngfólk að vinum. Sem sagt rosalega fín Akureyrarferð, en Gulla mín blessunin var því miður sárlasin og vonandi höfum við ekki verið til allt of mikilla óþæginda. Ég vona að hún sé búin að ná sér núna, en þegar fólk er veikt fyrir er það svo miklu lengur að jafna sig eftir veikindi, ég þekki það af eigin raun. Dagur og Kári voru auðvitað yndislegir eins og alltaf. Kári var að keppa í Tai kwon do á laugardagsmorguninn, Danni fór auðvitað með hann en þegar við, amman og afinn, mættum á staðinn var drengurinn hættur í keppninni en við fengum samt að sjá hann taka nokkrar laufléttar æfingar og afi tók myndir af honum í búningnum.
Jæja, næsta mál á dagskrá var svo ferming Núma Davíðssonar sem fram fór í gær. Það var afar ánægjulegur dagur, svo yndisleg athöfn og á eftir hittust fjölskylda og vinir í kaffi í Kvennagarði og fermingardrengurinn ljómaði af ánægju eins og sól í heiði. Mér þykir rosalega gaman að standa fyrir svona uppákomum, fílaði mig alveg í botn við að skreyta salinn og dekka borð. Númi hafði óskað eftir að hafa skreytingar í grænu og bláu svo það voru grænar og bláar servíettur og blá og hvít blóm með grænum greinum. Ég var að grínast með það að í mér blundaði stílisti, þetta var svo flott. Ég held satt að segja að svona veislur séu skemmtilegri fyrir fermingarbarnið heldur en stórar veislur með fullt af fólki sem barnið (aðalnúmerið) þekkir varla með nafni hvað þá heldur meira. Ég vil meina að það séu gæðin en ekki magnið sem skipti máli. Ég var auðvitað með fullt af kertum og hafði m.a. gert flotta skreytingu, skál með vatni með skrautsteinum á botninum og á yfirborðinu dóluðu svo átta flotkerti. Ég hafði að vísu ekki áttað mig á að herligheitin voru beint undir reykskynjaranum og þegar líða tók á veisluna upphófst þessi rosalegi hávaði og rauða brunabjallan yfir dyrunum fór á fullt. Það var ekki liðið andartak þegar öryggisvörðurinn var mættur á staðinn og eftir að hafa fullvissað sig um að ekki væri kviknað í var slökkt á hávaðanum. Ég lærði þó af þessu að það gæti kannski verið skynsamlegt að kanna allar aðstæður ef mörg kerti eru logandi í einu. En það verður auðvitað minnisstætt fyrir Núma að brunabjallan fór í gang í fermingarveislunni hans miðri. Eitthvað vorum við rausnarleg með kökurnar því nú er ísskápurinn hjá okkur troðfullur af afgöngum en samt fengu sumir veislugestanna að taka með sér heim kökur á bakka. Þó var þetta sami skammtur og hjá Ísold í fyrra og ekki svo mikið færri gestir núna. Nú er fermingarbarnið á förum til Svíþjóðar á miðvikudaginn og leiðin liggur til Jerna þar sem foreldrar hans bjuggu um tíma og þar sem systir hans fæddist. Ég vona að það verði ánægjuleg ferð fyrir hann.
Nú er ég komin í páskafrí frá söng og kraftgöngum og ætla að reyna að vera dugleg að vinna þessa daga, ekki veitir af.
Bless í bili. Meira fljótlega.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?