þriðjudagur, mars 08, 2005

 

Geggjaður gaur

Var að koma af alveg frábærri kóræfingu. Við fengum gospel og blúsmeistarann Seth Sharp í heimsókn og hann verður með okkur á næstu æfingum til að ná í okkur svolítilli sveiflu. Maðurinn er alger snillingur - fyrir utan að vera líka svolítið augnayndi - og honum tókst meira að segja að fá mig til að finnast gaman að syngja lög sem mér hafa hingað til ekki þótt neitt sérstaklega skemmtileg. Áfram, Seth! Og ég er meira að segja ekki svo voðalega þreytt eins og ég er þó venjulega. Eins og alltaf var ég í söngtíma á undan kóræfingunni og Hanna Björk er bara nokkuð ánægð með mig. Við fórum í Plaisir d'amour og hún stakk upp á að ég syngi það á samsöngnum á mánudaginn svo ætli ég láti ekki slag standa þótt ég sé enn í vandræðum með síðustu trilluna. Það rak líka happ á fjörur mínar á æfingunni, ein kórsystir var búin að kaupa miða á Toscu á fimmtudaginn en eitthvað kom upp á hjá henni svo hún kemst ekki og bauð mér að fá miðann og ég var ekki lengi að segja já. Svona getur maður stundum verið heppinn!
En nú þarf ég að fara að sinna öðru svo þetta verður ekki lengra hjá mér í bili.

P.S. Mikið er annars dásamlegt þegar veðrið er svona gott og daginn er farið að lengja. Það var meira að segja ekki orðið alveg dimmt þegar æfingunni lauk klukkan rúmlega átta.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?