föstudagur, mars 11, 2005

 

Hamagangur á Hóli

Það er nú meiri hamagangurinn í mér þessa dagana. Á föstudaginn fyrir viku var ég í leikhúsinu að sjá Edith Piaf, í gær fór ég í óperuna að sjá Tosca og annað kvöld er það Taktu lagið Lóa fyrir norðan. Geri aðrir betur, þrisvar sinnum á rúmri viku. Tosca var auðvitað frábær og fátt um það að segja frekar, ég varð sem sagt ekki fyrir vonbrigðum. Uppsetningin er líka stórglæsileg en það var eitt sem fór pínu, pínulítið í taugarnar á mér og það var að aðstoðarmenn Scarpia voru hafðir með sólgleraugu - líklega til að gera þá ógnvænlegri. En fyrst ekkert var gert til að færa verkið nær nútímanum fannst mér þessi sólgleraugu ferlega asnaleg. En nóg um það, þetta var alls ekki nóg til að eyðileggja sýninguna fyrir mér og eiginlega gleymdi ég þessu þegar líða tók á hana.

En nú erum við að fara norður og verðum þar væntanlega í góðu yfirlæti um helgina. Verst að það skuli vera farið að kólna, ég held að það sé spáð 7 stiga frosti þar á morgun. Nú, jæja, þá er bara að taka með sér hlý föt og ekki orð um það meir. Boðskortin í fermingu Núma fóru öll í póst í gær, ekki seinna vænna. Þetta er svo sem ansi afslappað, það eina sem ég hef áhyggjur af á þessu stigi eru kökurnar, en mér dettur ekki í hug að fara að velta mér upp úr einhverjum áhyggjum fyrr en þess er þörf. Ekki var ég svona róleg í tíðinni þegar strákarnir mínir voru að fermast. Fermingu Daníels gleymi ég aldrei þar sem ég lá á sjúkrahúsi dagana sem ég ætlaði að nota til undirbúnings og fékk bæjarleyfi til að fara heim í ferminguna!!! Eins gott að ég skyldi hafa hafa haft vit á því að panta veitingarnar hjá veisluþjónstu - sem var þó fyrst og fremst vegna þess að ég var eitthvað svo slöpp og þreytt að ég treysti mér ekki í að sjá um þær sjálf. En það tókst þó að koma drengnum í kristinna manna tölu, þótt hann sé löngu búinn að segja sig úr þjóðkirkjunni núna og telji sig vera trúleysingja.

Meira um raunveruleikaþætti: Geðvonda krípið er ekki enn fallið úr keppni í Amazing Race, því miður. Veslings konan gat aðeins náð sér niðri á honum þegar hann var að troða vínberin í síðasta þætti, en það var samt bara brot af því sem hún hefur mátt þola. Mér ofbauð samt alveg að heyra hana segja hvað þau væru hamingjusöm og sættust alltaf og kysstust í lok hvers áfanga. Annars er mér löngu farið að skiljast að það er svo ótrúlegur hellingur af undarlegu fólki í veröldinni að það tekur því ekki að hneykslast. Ég er ekki alveg búin að velja mér uppáhaldskeppanda í Survivor enn þá, hallast að því að það verði tattóveraða stelpan með hringina í nefinu, hún er helv... dugleg.

En það er ekki fleira í bili. Næst verður það ferðasaga helgarinnar. Over and out.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?