mánudagur, mars 28, 2005

 

Karlinn á vigtinni

Nú hefur karlinn á vigtinni í sundlauginni enn einu sinni verið að fíflast í mér, annað hvort hefur hann snúið henni niður fyrir núllið í fyrradag eða vel upp fyrir það í dag, það þarf sko enginn að segja mér að það sé nokkuð vit í því sem þessi vigt sýnir. Annars veit ég ekki af hverju ég er svona viss um að það sé karl sem sé að hrella mig, gæti það ekki alveg eins verið einhver kerling? Ég er hins vegar svo æfð í að setja upp pókerfeis að ég læt ekkert á mér sjá, hvað sem helv.... vigtin sýnir, brosi bara mínu blíðasta og arka út í laug.
Páskarnir hafa verið mikið góðir, okkur tókst að fara upp á Skaga á skírdag, það var virkilega gaman að sitja í ro og mag með bróður og mágkonu og rifja upp gamla daga og hlæja svolítið. Ferðinni í Bláa lónið var frestað en þess í stað farið í Eden í gær að kaupa ís og skoða sýninguna hjá Ingunni Jensdóttur, sem var bara alveg stórfín. Fastir liðir eins og venjulega um páskana, maður á ekki að breyta út af venjunni bara breytinganna vegna. Ísold og Númi eru hjá okkur núna, þau eru frábær að vanda og lítið fyrir þeim haft. Það er ekki vandamálið á þeim bæ. Gott að eiga svona unglinga.
Verst að á morgun byrjar hversdagsleikinn á ný og ég gerði ekkert af því sem ég hafði heitið að nota páskafríið í, er ekki enn búin að læra allar trillurinar í Plaicir d'amour og Hríslan og lækurinn er bara la la, Ich liebe dich er varla la la enn þá og prófið bara eftir mánuð sem þýðir fjóra tíma með kennara í viðbót (kannski fimm) og líklega fimm með píanistanum. Hamingjan hjálpi mér, ég sem ætla að standa mig svo vel!
Ég nenni ekki að tuða meira núna, veðrið er svo gott og skapið eftir því!

Meira um raunveruleikaþætti
Geðvonda krípið er dottið út í Amazing Race og farið hefur fé betra. Mér finnst bara furðulegt að blessuð konan skuli umbera þetta fól, en hún fullyrti að hún elskaði hann út af lífinu og þótt þau væru að skattyrðast meintu þau ekkert með því!!! Það eru greinilega fleiri en Fischer greyið ekki alveg með fulle fem. Og sú með tattúið í Survivor er dottin út líka svo ég þarf að fara að finna mér annan eftirlætiskeppanda. Stefni að því að gera það í kvöld. Ég hef ekki enn ákveðið með hverjum ég held allra mest í American Idol en það kemur kannski að því. Mér finnst tveir strákanna mjög góðir (og sætir) og líka tvær stelpnanna, það fer að koma í ljós með hverjum ég held, ef ég vel einhvern „eftirlætis“ á annað borð.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?