miðvikudagur, mars 02, 2005

 

Langt síðan síðast

Það er orðið ansi langt síðan ég tjáði mig síðast, sem stafar fyrst of fremst af því að ég hef verið að gera allan fj... annað. Helgin var alveg frábær, Ísold og Númi voru hjá okkur af því foreldrarnir voru bæði í Danmörku, auðvitað þó ekki saman. Það er orðið ansi langt síðan ég hef verið með unglinga á heimilinu en þetta tókst nú samt prýðilega - enda eru þetta svo ljúfir og góðir krakkar. Við fórum í Bláa lónið á sunnudeginum og ég held að þeim hafi bara fundist ágætt að fara með ömmu og afa. Við hjónin vorum nefnilega búin að ákveða að næst þegar það yrði gott veður á sunnudegi myndum við skella okkur og unglingarnir voru alveg tilbúnir að koma með svo þetta varð hin ágætasta fjölskylduferð. Þau fóru svo til mömmu sinnar í gær eftir fjögurra nátta gistingu hér á Tjarnarbóli. Það eina sem mér fannst erfitt var að vakna fyrir allar aldir, þ.e. laust fyrir klukkan 7 til að byrja á að koma Núma af stað. Hann þurfti að taka strætó 20 mín. yfir 7 til að ná skólarútunni við Efstaleiti klukkan 8. Hann gat tekið sama strætó og hann er vanur, bara nokkrum mínútum fyrr. Ísold vakti ég svo þegar hann var farinn. Ég verð að játa að báða morgnana skreið ég upp í aftur og lagði mig þegar þau voru farin. Á morgun verður svo Rauðhyltingagengið á fundi hjá mér í sambandi við væntanlega bók sem á að koma út í sumar. Ég á von á 10 manns svo það er víst best að skella í eina eða tvær kökur í fyrramálið til að bjóða liðinu. Og - ég þarf líka að setja saman dagskrá fyrir fundinn, ekki má það gleymast. Annars finnst okkur svo gaman að hittast að yfirleitt erum við farin að tala út um holt og móa og gleymum alveg aðalatriðinu. Þetta hefur samt gengið það vel að nú erum við farin að sjá fyrir endann á verkinu. Á föstudaginn fer ég svo að sjá Edith Piaf, pantaði miðana strax í janúar því það er alltaf uppselt á þetta stykki, enda hef ég heyrt að það sé alveg frábært.

Göngufréttir
Haldið þið að við höfum ekki skráð okkur (án skuldbindinga þó) í Hornstrandaferðina í sumar. Það verður væntanlega farið um miðjan júlí, dvalið í Hornvík og farið í gönguferðir þaðan. Ég held að það verði alveg svakalega gaman og vona innilega að við getum farið. Síðasta helgin í júlí er auðvitað frátekin eins og alltaf en það er nánast víst að þessi ferð verður um miðjan mánuðinn.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?