þriðjudagur, mars 22, 2005

 

Með ólíkindum

Veðrið í dag er alveg með ólíkindum, glampandi sól og blíða. Kannski að það sé bara að koma sumar og kuldakastið um daginn hafi verið snemmbúið páskahret. Vonandi. Ég verð einhvern veginn öll betri manneskja þegar veðrið er svona og maður þarf ekki að dúða sig í mörg lög af fötum áður en farið er út. Og hver getur verið með þras og leiðindi í svona sólskini? Ég ætlaði meira að segja að þrasa út af ýmsu en ég held að ég nenni því ekki í dag - og þó.
Nú er Fischer ræfillinn búinn að fá ríkisborgararétt, ég get ekki sagt að ég sé hjartanlega sammála því mér finnst alveg nóg af rugluðu fólki hérna og ég held að mörgum hafi verið neitað um ríkisborgararétt sem frekar hefðu átt skilið að fá að búa hér í ró og næði. Því verður ekki neitað að á sínum tíma braut hann bandarísk lög, enda þótt ég sé alfarið á móti viðskiptabanni, sama gegn hverjum, því viðskiptabann bitnar fyrst og fremst á óbreyttum borgurum og þá helst konum og börnum og þjappar fólki frekar saman að baki stjórnvalda heldur en að það snúist gegn þeim, við sjáum bara að viðskiptabannið á Írak hafði nákvæmlega engin önnur áhrif en að drepa saklaus börn sem ekki fengu nauðsynleg lyf vegna viðskiptabannsins. En nú er ég komin langt frá því sem ég var að segja áðan um Fischer. Kannski læt ég bara svona af því ég hélt eindregið með prúðmenninu Spassky á sínum tíma og þegar ljóst var að Fischer væri orðinn heimsmeistari og ég stóð við bakdyrnar á Laugardagshöllinni þegar hann kom út, gat ég ekki stillt mig um að úa á hann, en fékk ákúrur fyrir frá mínum heittelskaða. Fréttafólk má ekki láta skoðanir í ljósi. Ég var þarna sem sagt í hlutverki hljóðupptökumanns og varð svo fræg að rétt á eftir var hljóðupptakan mín með úinu og öllu saman send út um allan heim! Ég vil bara benda á annað mál, óskylt reyndar, sem ég hef ekki orðið vör við að stórir hópar fólks væru að beita sér mikið í og það er ungi pilturinn sem situr í stofufangelsi í Texas og er stimplaður stórhættulegur kynferðisafbrotamaður, vegna fíflagangs þegar hann var ellefu ára og ekki einu sinni kominn með hvolpavit. Hvernig væri að beita sér fyrir því að hann fái að koma heim? Kannski ætti Skeljungur að bjóðast til að senda þotu eftir honum. Og þetta hlýtur nú að kallast þras - eða hvað?
Þá er best að tuða aðeins um það hve gífurlega það fer í taugarnar á mér að fólk skuli alltaf vera að versla. Það er ekki lengur til siðs að kaupa eitthvað. Í útvarpinu áðan var verið að segja frá einhverri munkareglu og einn ákveðinn munkur hafði það hlutverk að „versla“ mat fyrir regluna. Og sama er að segja um þegar sagt er: „Keyptu þetta.“ Mér dettur í hug að fólk sem segir svona geti tekið upp á að segja: „Hleyptu nú út í búð og keyptu fyrir mig mjólk.“ Og það er þrælfullorðið fólk sem talar svona svo það er kannski ekki furða þótt unga fólkinu verði á í messunni.
En nóg þras í bili. Það eru að koma páskar og ég ætla að reyna að njóta þeirra vel. Kannski að skreppa upp á Skaga, fara í Bláa lónið og jafnvel eitthvað fleira.
Heyrumst!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?