laugardagur, mars 05, 2005

 

Mikið er gott að vera heima!

Mikið er gott að vera heima í ró og næði. Laugardagsmorgnarnir þegar bóndinn er í vatnslitaklúbbnum eru mér afar dýrmætir, kyrrðin hérna er svo dásamleg. Nú má ekki skilja þetta sem svo að eiginmaðurinn sé óheflað rustamenni með hávaða og hamagang, alls ekki. Hann er ákaflega ljúfur maður sem lagar iðulega handa mér kaffi á morgnana áður en hann vekur mig. Nei, það er bara eitthvað við einveruna sem ég kann svo vel við. Ég gæti held ég hugsað mér að leigja mér bústað uppi í sveit og vera þar ein í viku. Við sjáum nú til.

Það hefur verið brjálað að gera hjá mér, fimmtudagsfundurinn var afbragðsskemmtilegur. Þetta fólk er svo skemmtilegt og létt í lund og svo spillir auðvitað ekki fyrir hvað þetta eru allt saman bráðgáfaðir einstaklingar! Nema hvað? Mikið rosalega er ég heppin að eiga svona frábæra stórfjölskyldu. Rauðholtskynið stendur fyrir sínu. Áfram Rauðhyltingar! Reyndar var ákveðið að bókin komi ekki út fyrr en í haust í stað þess að reyna við sumarið. Það er enn eftir að ganga frá dálitlu af efni, ég þarf til dæmis að bæta því við frásögnina um Jón frænda þegar ég var líltil og lá í flensu og hann gaf mér rommpúnsið! Það svínvirkaði auðvitað, ég var komin á fætur daginn eftir. Eitthvað taldi fólkið þó að þarna væri kannski komin ástæða þess hvað mér finnst gaman að fá mér í tána öðru hvoru! Ætli ég hafi ekki verið svona tíu ára þegar þetta var. Svo var ég beðin að skrifa eitthvað smávegis um Sæbjörgu - það gæti verið sagan um það þegar karlinn bauð henni í leikhúsið og sitthvað fleira frá samveru okkar þegar ég bjó hjá henni meðan ég var í Kvennó.

Svo erum við að fara til Akureyrar um næstu helgi, bókuðum flugið í gær og áttum fyrir því í punktum. Maður má auðvitað til að sjá yngri soninn í Freyvangsleikhúsinu - hann fær þessa glimrandi fínu krítik. „...Daníel Freyr Jónsson náði að verða litríkur sem kærastinn útsmogni.“
Flott hjá mínum! Það verður alveg þrælgaman að bregða sér norður og hitta fólkið, ég er strax farin að hlakka til.

Við Ella fórum að sjá Edith Piaf í gærkvöldi, það var frábær sýning og Brynhildur Guðjónsdóttir breytist hreint og beint í Edith Piaf á sviðinu. Alveg magnað. Það fór samt í taugarnar á mér að sumir söngtextarnir voru á íslensku og aðrir á frönsku, mér fannst það hálfklúðurslegt. Ég hefði einfaldlega viljað hafa allt sungið á frönsku, þetta eru allt lög sem maður þekkir og hefur raulað með. Sumt sem verið var að heimfæra upp á íslenskar aðstæður hljómaði hreint og beint kjánalega svo ekki sé minnst á að áherslan gat ekki alltaf lent á fyrsta atkvæði. En auðvitað er þetta bara smáræði, í heild var þetta mögnuð sýning og stykkið hefði ekki verið sýnt 57 sinnum ef ekki væri eitthvað varið í það!

Það er spurning hvort við förum í strandgönguna í fyrramálið - mig dauðlangar en ég er alveg dauðþreytt svo það fer líklega eftir því hvernig dagurinn í dag verður. Annað kvöld förum við svo á æskulýðssamkomu í Neskirkju til að sjá leikrit sem Ísold samdi, leikstýrir og leikur í. Geri aðrir betur! Nú er komið á hreint að Númi fermist 19. mars svo það er eins gott að byrja undirbúninginn. Eftir samkomuna á sunnudagskvöldið verður fjölskylduráðstefna til að ákveða fyrirkomulagið. Ég er búin að fá salinn eins og í fyrra og ætlunin er að hafa þessa fermingarveislu nákvæmlega eins og þegar Ísold fermdist.

Nóg í bil. Over and out.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?