fimmtudagur, mars 31, 2005

 

Senn kemur vor

Senn kemur vor, sólin vermir spor,
rísa af rökkurblund runnar og blóm.
Fjallalind fríð laus við frost og vetrarhríð,
létt og blítt í lautum hjalar,
í lautum hjalar hún við lágan stein.

Fuglinn minn flaug, frjáls um loftið smaug,
leitaði strandar í lifandi þrá
norður til mín þar sem nætursólin skín.
Kvað hann þá svo kátum rómi,
svo kátum rómi hátt um kvöldin löng.

Þetta syngjum við Gospelsystur stundum og nú má sannarlega segja að senn komi vor því á morgun er 1. apríl. Reyndar er spáð kulda og jafnvel einhverri snjókomu um helgina en það verður bara að hafa það, vorið er samt skammt undan og það fyllir mig bjartsýni. Nú er bara um að gera að bretta upp ermarnar og hella sér af krafti út í það sem gera þarf og koma því í verk, en það er svo sannarlega eitt og annað á þessum bæ. En á næstunni ætla ég bara að hugsa um vinnuna og söngprófið (og auðvitað kóræfingarnar), tíminn á þriðjudaginn féll niður af því Hanna var veik en hún bætir mér það svo upp. Það er bara tæpur mánuður í prófið núna og ég margt eftir að pússa og fínpússa.
Númi minn blessaður fór til Svíþjóðar í gær, þaðan verður svo farið til Finnlands en allt í allt tekur ferðalagið hálfan mánuð. Hann var bæði spenntur og kvíðinn eins og eðlilegt er. Hann sagðist ætla að reyna að senda okkur kort, það kemur í ljós hvort hann gerir það. Reyndar mundi hann eftir að senda okkur kort frá Ameríku sumarið sem hann var þar hjá frænku sinni svo það er aldrei að vita.
Og hvað haldið þið? Ég hef bara ekkert þusað núna. Over and out.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?