laugardagur, apríl 09, 2005

 

Allt er gott sem endar vel - eða þannig

Þá eru Kalli og Kamma komin í það heilaga og þó reyndar ekki, þetta var borgaraleg vígsla. En ég vona bara að þau lifi hamingjusöm til æviloka, en það er víst ekki hægt að óska þess að þau eignist börn og buru því Kamma mun komin úr barneign. Eins og ég hef sagt áður er hreint skelfilegt að gamlar, úreltar hefðir komi í veg fyrir hamingju fólks og að mannslífum sé jafnvel fórnað á altari hefðanna. Nei, fjandinn hafi það. Girndarhjónabönd voru litin hornauga á Íslandi á 19. öld og þannig er það víst enn meðal aðalsins í Bretlandi. Ja, svei. Mikið rosalega er ég heppin að vera ekki af breskum aðalsættum! Maður hefur svo sem fyrir margt að þakka.

Dagurinn hófst á kóræfingu frá kl. 9.30 til 11.30, við tókum efnið sem við eigum að syngja á afmæli Vigdísar en mér fannst það ekki ganga nógu vel. Kannski hefur það verið vegna þess að það voru allir þrír kórarnir saman. Svo tóku Gospelsystur You don't own me, en ég hafði ekki tekið nóturnar með og söng bara nótulaust og viti menn, það gekk upp. Ég sem sagt kann þetta betur en ég hélt, ruglaðist bara einu sinni í öllum shoo-unum og doowop-unum.
Gott mál.
Seinnipartinn í dag var ég í klukkutíma með Arnhildi píanista og tókst bara býsna vel upp þótt ég segi sjálf. Lögin þrjú sem ég vel sjálf kann ég orðið 110%, meira að segja Kossavísurnar sem ég hef ekki litið á síðan í fyrravetur, og hin sem við fórum yfir eru í fínu lagi, þurfa bara aðeins meiri pússun. Hanna Björk gat ekki verið með mér eins og hún ætlaði að gera, en það kemur tími eftir þennan tíma. Ég kvíði samt svolítið fyrir prófinu, það er allt annað að taka próf þar sem maður fær prófblað og veit eftir að líta á það hvort maður getur svarað spurningunum eða ekki. Þetta er eitthvað svo mikið matsatriði.
En sem sagt, ekki annað að frétta í dag, meira seinna. Over and out.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?