föstudagur, apríl 08, 2005

 

Er letin að drepa mig?

Nei, ég held að það séu frekar annir en leti. Þessi vika hefur liðið alveg ótrúlega hratt og ég hef verið að atast í mörgu. Það er komið á hreint að stigsprófið verður 2. maí svo ég ákvað að slaufa kvennakóramótinu sem verður 29. apríl til 1. maí, eins gott að æfa þessi ellefu lög sem ég þarf að standa klár á. Svo er afmæli Vigdísar á föstudaginn og við eigum að syngja í veislunni um kvöldið, æfing í fyrramálið út af því (og einhverju fleiru) og síðan klukkutímatörn með Arnhildi klukkan þrjú og þá ætlar Hanna Björk líka að mæta og taka mig í gegn. Á milli þess sem ég hef henst í söng og krarftöngu hef ég setið við tölvuna og þýtt, get væntanlega skilað einum feitum reikningi og öðrum horuðum á mánudaginn! Eftir hádegið í dag vorum við hjónin á ótrúlegum þeytingi milli staða í tvo og hálfan tíma og enduðum inni í Holtagörðum þar sem við byrjuðum á að fara í Ikea og kaupa dót sem okkur hefur alltaf vantað, síðan lá leiðin í Rúmfatalagerinn og eftir innkaup þar sáum við að okkur vantaði enn einn hlut úr Ikea svo það var farið þangað aftur og svo endað í Bónus til að kaupa í matinn. Áður en við komum í Holtagarða vorum við búin að fara á sex staði, þ.e. Sjúkraþjálfun Reykjavíkur, Nýherja, Þýðingar og textaráðgjöf, Myndbandavinnsluna, Þvottahúsið Fönn og Dekurhornið. Komum klyfjuð heim og nú nenni ég ekki að fara að vinna. Nei, það er ekki leti, það er bara heilbrigð skynsemi. Í kvöld förum við Inda svo saman til Skúla frænda að ræða útgáfumál Rauðhyltingabókar, það verður ekki leiðinlegt. Á morgun má ég svo til að hringja í Sævar í Rauðholti, hann var að reyna að ná í mig í vikunni en ég var auðvitað aldrei heima og þegar ég var svo loksins heima var ég of upptekin til að hringja. Þetta gengur auðvitað ekki, skammastu þín Sigríður! Nú ætla ég bara að slaka á, Hulda ætlaði kannski að kíkja inn á eftir og sækja afmælisgjöfina - það er nú ein skömmin enn að hafa ekki komið gjöfinni til hennar á mánudaginn þegar hún átti afmæli. Hulda er samt ekkert fúl út af því svo Guð hlýtur að fyrirgefa það líka. Ætli ekki það.
Segi þetta gott í bili og reyni að vera duglegri í næstu viku.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?