sunnudagur, apríl 24, 2005

 

Gleðilegt sumar!!!!

Blessað vorið birtist aldrei þessu vant á sumardaginn fyrsta. Það er svona varla að maður þori að vona að það komi ekki kuldakast aftur - tíu stiga hiti dag eftir dag í apríl er eiginlega ótrúlegt. Það minnir mig reyndar á skáldsöguna Hitabylgja í apríl sem ég var einu sinni byrjuð að skrifa en heyrir nú sögunni til. Ég ætlaði reyndar ekki að tala um gamlar hugdettur heldur að segja hvað það er gaman þegar eitthvað kemur manni skemmtilega á óvart. Í dag fórum við hjónin sem sagt í Bláa lónið eins og við gerum stundum og okkur datt í hug að fá okkur kaffi á eftir á hótelinu þar, Northen Light Inn eða Norðurljósakránni. Við vorum auðvitað svo óheppin að þar var lokað vegna breytinga og hvorki vott né þurrt að fá nema fyrir hótelgestina. Þar sem við höfum svo oft fengið okkur eitthvað í veitingahúsinu í Bláa lóninu ákváðum við að brenna inn í Grindavík og athuga hvort ekki væri eitthvað að fá í Saltfisksetrinu þar. En viti menn - þegar til Grindavíkur kom var leiðin inn í bæinn lokuð vegna einhverra framkvæmda og við þurftum að fara einhverja hjáleið til að komast niður að höfn. Sem við erum svo að aka þar sjáum við þetta líka ljómandi fallega hús og við nánari athugun var þetta veitingastaðurinn Saltfiskhúsið (nema hvað í Grindavík?) og við ákváðum að kíkja þar inn. Þetta reyndist hinn huggulegasti staður svo ég pantaði mér samloku og Jón fékk sér að sjálfsögðu heitt eplapie með rjóma. Meðan við vorum að bíða fór ég að skoða mig aðeins um og það endaði með því að okkur var boðið að skoða húsið hátt og lágt og þetta er glimrandi skemmtilegt veitingahús með koníaksstofu og þremur sölum. Og ekki skemmdi fyrir að veitingarnar voru svo ljómandi góðar og lystugar, það er langt síðan ég hef fengið svona góða, ristaða samloku. Saltfisksetrið verður því að bíða betri tíma og ég mæli með því að renna til Grindavíkur og prófa þennan stað. Hann fær margar stjörnur hjá mér.

Mér leiðist þegar...
Mér leiðist þegar fólk er að reka hornin í aðra án þess að hafa neitt fyrir sér í því nema:
„Ég heyrði þetta einhvers staðar, ég man ekki hvar.“ Þetta kemur því miður stundum fyrir og ég held að fólk átti sig ekki á því hvað þetta getur verið hættulegt. Og svo þegar maður leiðréttir hlutina eða segist ekki hafa þá reynslu af viðkomandi er sagt: „Nei, auðvitað getur þetta bara verið vitleysa.“ Þá er spurningin við hverja fleiri er búið að segja eitthvað svipað og um hverja. Mikið vildi ég að fólk hugsaði svolítið áður en það segir eitthvað svona.

Auðvitað gat ég ekki látið það vera að nöldra pínulítið þótt vorið sé komið, en annars er það að segja að við Ella vinkona erum búnar að bóka ferð til Billund 4. júní og ætlum að vera hjá Vallý í viku. Það verður áreiðanlega mikið fjör og hlegið út í eitt.
Meira um það þegar þar að kemur.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?