föstudagur, apríl 01, 2005

 

Merkilegur dagur

Eftir að hafa hrapað í áliti hjá mér í hádeginu langt niður fyrir núllpunktinn silaðist Auðun Georg Ólafsson upp fyrir hann aftur þegar hann ákveð að taka ekki við starfi fréttastjóra á ríkisútvarpinu. Reyndar verð ég að segja að ég dauðvorkenni honum, þetta er bara ungur strákur sem lenti í því að vera leiksoppur hrokafullra pólitíkusa. Ég efa ekki að hann er ágætisdrengur, samviskusamur og góður starfsmaður - en almáttugur, hann á greinilega ótalmargt ólært. Það er samt líklega til of mikils mælst að ætlast til þess að Markús Örn segi upp. En hvernig er annars hægt að sitja sem yfirmaður ef starfsmennirnir treysta manni ekki? Það verður Markús blessaður að gera upp við sig - en við vitum auðvitað öll hver útkoman verður.

Jæja, nóg um það. Svo virðist sem páfinn hafi gefið upp öndina núna í kvöld þótt það hafi ekki verið staðfest af Vatíkaninu. Það er auðvitað atburður sem snertir alla heimsbyggðina og vonandi að nú verði valinn einhver frjálslyndur kardináli, það verður að segjast eins og er að kaþólska kirkjan er farin að minna ískyggilega mikið á miðaldastofnun. Og svo er ekki samræmi í hinum ýmsu yfirlýsingum eins og núna þegar það er fordæmt að taka næringarslöngurnar úr sambandi hjá Terri Schiavo, einhver kardináli lýsti yfir að það væri árás á Guð, skapara lífsins. Ég man ekki betur en það hafi líka verið fordæmt þegar byrjað var með líffæraflutninga og það hafi verið kallað að „taka fram fyrir hendur skaparans“. Leiðréttið mig endilega ef það er rangt.

Uppáhöldin mín (er hægt að segja svona?) í American Idol eru öll inni enn þá, verða það vonandi smátíma enn, en það eru þau Constantin, Anwar, Nadia og Waleeza (mig minnir að hún heiti það). Mér fannst hálfdapurlegt að sjá að Anwar og Nadia voru svona neðarlega síðast, ég hefði frekar viljað sjá Scott og Anthony, þann rússneska, í þeirra sporum. Eða hvað, er ég bara að dæma fólk eftir útlitinu? Kannski er ég ekki eins fullkomin og ég held.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?