sunnudagur, apríl 03, 2005

 

Nú er úti norðanvindur

Nú er úti norðanvindur,
nú er hvítur Esjutindur.
Ef að ég ætti úti kindur
myndi ég setja þær allar inn,
elsku besti vinur minn.

Já, Esjutindur er hvítur og karlinn í lauginn er alltaf að fikta í vigtinni en mér er nokk sama. Í dag synti ég 1000 metra (Jón segir reyndar að það hafi verið meira) og ætla að halda því áfram. Ef ég geri það kannski tvisvar í viku og fer í kraftgöngu tvisvar í viku ætti ég að komast í form. Ég er reyndar orðin miklu þolnari eftir alla gönguna í vetur og get ekki hugsað mér að hætta í henni. Við vorum auðvitað svo óheppin að Hornstrandaferðin verður akkúrat sömu helgina og ættarmótið og við ætlum frekar að mæta á það. Ég gert ekki hugsað mér að missa af því, manni líður alltaf svo vel í hjartanu á eftir. Hornstrandirnar verða á sínum stað næsta sumar og kannski gætum við hjónakornin farið tvö ein einhverja aðra helgi í sumar. Við erum hvort sem er að spá í að heimsækja galdramenn á Ströndum (skoða Trékyllisvík) og þá er lítið mál að halda áfram til Ísafjarðar og taka ferjuna yfir Djúpið. Við sjáum til.

Ég var í dag að byrja að þýða svolítið góða mynd (auðvitað ameríska og sykursæta) um konu sem sagt var upp sem fréttaþul á sjónvarpsstöð af því hún þótti of gömul og þá var mér hugsað til vinkonu minnar sem lenti í því sama í vetur (hún er reyndar lögfræðingur og kom ekkert nálægt fjölmiðlum). Hvers vegna í ósköpunum er kláru, samviskusömu og harðduglegu fólki sagt upp ef það er komið yfir einhvern vissan aldur? Hughreystingin sem vinkona mín fékk var að hún gæti bara farið á atvinnuleysisbætur þar til hún færi á eftirlaun. Oj, bara! Ég þoli ekki þessa andskotans æskudýrkun. Þekkist ekki lengur að ungt fólk öðlist reynslu í starfi og vinni sig upp? Svari því sá sem veit. En nóg af tuði í bili, tuða kannski meira seinna.

Á morgun verður Hulda 22ja ára. Ótrúlegt að eiga svona gamalt barnabarn.
Og svo er hún alveg gullfalleg og stórglæsileg stúlka - og svo dásamlega normal.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?