sunnudagur, maí 01, 2005

 

Bara að morgundagurinn væri liðinn!!!

Ég fer í prófið klukkan fjögur á morgun og er svo stressuð að ég gæti ælt. Það er varla að ég kunni textana sem ég þarf að syngja, hvað þá að ég geti sungið þá! Ég verð að reyna að róa mig niður, annars fer allt í steik hjá mér.
Við ætluðum í sund í morgun en þá var laugin hérna lokuð af því það er 1. maí (brúðkaupsafmælið okkar) svo við enduðum með því að fara í Laugardalslaugina - það var svo sem ágætt að breyta aðeins til. Ætli ég reyni svo ekki bara að vinna og æfa mig í dag - ekki veitir af á báðum vígstöðvum.

Svo smánöldur í lokin. Það er eins og fólk sé hætt að nota sögnina að kaupa, nú versla allir. Líklega kaupa engir í matinn lengur nema við sérvitringarnir. Og svo er líka eins og fólki þyki óþarfi að beygja orð. „Hér var rætt við Arnór Guðjónssen, faðir Eiðs Smára,“ var sagt í útvarpinu áðan. Ég meina það!

Afmælisundirbúningur hefur setið á hakanum en eftir morgundaginn verður allt sett af stað. Reyndar er ekki um mikinn undirbúning að ræða af minni hálfu, annað fólk sér um þetta allt. Reyndar ætlaði ég að panta blóm áðan hjá Helgu en auðvitað var Blómálfurinn lokaður af því það er 1. maí. Verð að reyna að muna það á morgun.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?