fimmtudagur, maí 26, 2005

 

Fátt nýtt að frétta

Það er fátt nýtt að frétta af okkur hérna á Tjarnarbólinu. Við erum aftur byrjuð í kraftgöngunni eftir mánaðarhlé, ég rétt get æft mig í hálfan mánuð áður en ég fer út. Það kom mér samt á óvart hvað ég var hress eftir hléið, ég er auðvitað þreytt að göngunni lokinni en ekkert umframkomin. Eftir gönguna höfum við líka farið beint í sund og gufu og það hefur áreiðanlega mikið að segja. Ætli ég verði ekki orðin mesti göngugarpur í ágúst þegar stöllurnar sem þjálfa okkur fara í frí og gangi bara og gangi upp á eigin spýtur. Ég hef horft á Esjuna úr fjarska og hugsað hvað það væri nú gaman að komast upp á topp, ég þekki vana konu sem fer upp og niður á fjórum tímum að mig minnir. Ég get nú samt ekki ímyndað mér að ég leiki það eftir.
Eftir gönguna í gær hittum við Daníel Frey uppi í Perlu, það kom skemmtilega á óvart. Hann er þá í skólaferðalagi með unglingana sína og verður hér í þrjá daga en ekki á ég von á honum í heimsókn, það er víst nóg að gera hjá honum að passa blessuð börnin.
Einhverra hluta vegna hvarf myndin af mér af síðunni þegar minn elskaði skipti um lén. Við erum búin að reyna allt sem við getum til að koma henni inn aftur og hún er í fínu lagi á dashboard, en það er eins og hún vilji ekki koma á sjálfa síðuna. Mér er svo sem sama, minn yndisþokki er heldur á undanhaldi svo ég læt fólki bara eftir að ímynda sér hvernig ég lít út.
Nú er heldur farið að hlýna en mér finnst samt skítkalt enn þá. Fór samt í uppáhaldsbúðina mína í dag (Villtar og vandlátar) og ætlaði að kaupa mér sumarbuxur en ef því ég brást ekki við strax í gær þegar ég fékk tölvupóst um að verið væri að taka upp nýjar vörur í Earth Collection var allt búið í mínu númeri þegar ég mætti á staðinn síðdegis í dag. Reyndar eru þetta danskar vörur, vel þekktar þar í landi, svo það er ekki ólíklegt að ég finni búð í Silkiborg eða Århus með þær. Það kemur bara í ljós, sem stendur á ég allavega buxur til skiptanna, en þó ekki meira.
Ég held að ég bíði með að setja blóm á svalirnar þar til ég kem aftur, það er hvort sem er ekkert gaman að sitja úti enn þá. Þegar hlýnar aðeins meira verður það fínt, enda eru svalirnar okkar alkunnur suðupottur.
Og svei mér þá ef ég held ekki að ég sleppi því að nöldra núna, ekkert hefur farið sérstaklega í taugarnar á mér undanfarna daga - nema kannski þegar ákveðinn stjórnmálaflokkur þykist hafa uppgötvað hjólið!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?