fimmtudagur, maí 19, 2005

 

Ég get svo svarið það!

Ég verð nú að segja að ég er reglulega spæld yfir að við komumst ekki áfram í Evróvísjón. Sum lögin sem komust áfram voru vægast sagt skelfileg, en kannski hefur það sitt að segja hversu Austur Evrópa er fjölmenn. Ég gaf reyndar Ungverjunum stig af því mér fannst lagið frumlegt og flutningurinn skemmtilegur og svo fengu Norsararnir stig frá mér fyrir að vera svona dásamlega absúrd. Minntu svolítið á Queen ef ég man rétt. Þriðja stigið mitt fékk svo Mónakó en ég vissi svo sem að það kæmist ekki áfram. Allt of einfalt lag til þess en ósköp hugljóft og fallega flutt. En það dugir ekki að vera tapsár - við gerum bara betur næst. Selma stóð sig allavega vel og stelpurnar voru flottar í korselettunum. Líklega hafa þær ekki sýnt nóg hold miðað við söngkonurnar sem komust áfram. Nóg af þessu nöldri í bili.

Kvefpestin hefur verið að drepa mig en svo fékk ég loksins sýklalyf í gær og nú er líðanin að verða miklu betri svo ég er að hugsa um að drífa mig á rand með BPW annað kvöld. Það verður eitthvað voða mikið fjör svona í lok vetrarstarfsins. Það á að mæta við Landsbankann í Austurstræti klukkan háflsjö og gera eitthvað mjög dularfullt í miðbænum. Meira um það seinna.

Það er svo margt sem flýgur í gegnum huga mér svona í vetrarlok. Mér finnst lífið til dæmis alveg fádæma skemmtilegt þessa dagana þrátt fyrir pest og annir. Ég hlakka til sumarsins og vona að okkur gefist tækifæri til að ferðast svolítið um landið - norðanverðir Vestfirðir eru til dæmis mjög ofarlega á blaði hjá mér. Hvort okkur tekst það er svo annað mál en þar til það kemur í ljós ætla ég bara að vera glöð og kát og hlakka til.

Þegar sumarið guðar á glugga
er gaman að sitja ekki í skugga
heldur bjóða því inn
að dvelja um sinn
því sólskinið alla mun hugga.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?