fimmtudagur, maí 12, 2005

 

Hálbólga, hæsi og hallæri

Hef verið að drepast í hálsinum síðan á laugardaginn var, var að vona að ég yrði orðin góð í dag en er það því miður ekki og tónleikarnir eru í kvöld. Reyni samt að hella í mig slímlosandi hóstasaft og C-vítamíni í von um að verða þokkaleg í kvöld. Held að þetta verði býsna góðir tónleikar - eins og auðvitað alltaf hjá Gospelsystrum. Ég treysti mér ekki til að mæta kl. 6.45 í morgun upp á Stöð 2 til að syngja í Íslandi í býtið en sá stelpurnar og Seth áðan á Netinu og þau voru auðvitað frábær. Meira um tónleikana seinna.

Mig langar til að benda fólki á að lesa grein Jóns Orms Halldórssonar í Fréttablaðinu í gær, Að muna og gleyma, sem er einhver sú besta sem ég hef lesið um þetta viðkvæma mál sem seinni heimsstyrjöldin er auðvitað enn. Hún fjallar sem sagt um um að gera upp við fortíðina til að geta horfst í augu við framtíðina. Vonandi fyrirgefur höfundurinn mér að ég leyfi mér að vitna í hana orðrétt: Það eru yfirburðir Hollywood í kvikmyndaheiminum en ekki sögulegar staðreyndir sem hafa gefið kynslóðum fólks á Vesturlöndum þá mynd af stríðinu að það hafi fyrst og fremst verið Bandaríkjamenn sem sigruðu Þýskaland. Framlag þeirra skipti miklu en sýnist um leið lítið í samanburði við framlag og fórnir Rússa. Rússneska þjóðin notaði stríðið í pólitískum tilgangi og hvorug þjóðin umgengst þessa miklu sögu af raunverulegri virðingu við fórnarlömb stríðsins. Bretar virðast fastir í gömlum og oft ósönnum staðalmyndum af sjálfum sér og öðrum. Frakkar neita að horfast í augu við dapurlegar staðreyndir um þjóð sína í síðari heimsstyrjöldinni. Japanir hafa einangrað sig í Asíu með afneitun sinni á nýlegri sögu landsins. Í þessum efnum ættu menn að taka Þýskaland sér til fyrirmyndar. Svo mörg voru þau orð og ákaflega skynsamleg eins og allt sem kemur úr penna þessa pistlahöfundar.
En fyrst ég er farin að fjalla um fjölmiðla má ég til með að segja fáein orð um þáttinn hjá Opruh í gær. (Svona er okkur þýðendum uppálagt að skrifa nafnið í þessu falli). Ég ætla svo sem ekkert að fara að hneykslast á hákarli og hrútspungum en það fer alltaf í taugarnar á mér þegar þessi ýkta áhersla er lögð á gífurlega fegurð og lauslæti íslenskra kvenna. Að vera laus við tepruskap varðandi kynlíf er eitt, lauslæti er annað og það finnast hérna líka feitar, heimskar og leiðinlegar konur eins og Guðmundur Steingrímsson benti skemmtilega á í Víðsjá í gær. Mér hefði bara fundist að það mætti minnast á að Íslendingar hefðu verið fyrstir manna til að kjósa konu í embætti forseta og einnig hefði mátt minnast á að borgarstjórinn í Reykjavík væri kona og ekki sú fyrsta til að gegna því embætti, að forstjóri stærsta flugfélags landsins væri kona og kona væri sömuleiðis forstjóri stærstu álverksmiðjunnar. Minna um lauslætið, meira um dugnaðinn.
Ég vil taka það fram af gefnu tilefni að þetta er ekki nöldur, ég er bara að láta álit mitt í ljós!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?