þriðjudagur, maí 31, 2005

 

Meiri dýrðarinnar dásemd

Það er nú meira dýrðarinnar dásemdarveður búið að vera í dag, verst að ég hef eiginlega ekkert getað verið úti að njóta þess, en það hlýtur að standa til bóta. Var alveg rosalega dugleg að vinna í dag og ætla líka að vera það á morgun, hver veit nema ég geti klárað meira en ég ætlaði mér áður en ég fer út? Ég hef enn ekki komið myndinni af mér aftur á síðuna en ég fékk leiðbeiningar frá „frænda fyrir Westan“ um hvernig ég á að gera það. Ætli ég láti það ekki bara bíða þangað til ég kem heim aftur, eins og fleira. En takk fyrir, Maggi minn, ef þú lest þetta.

Áðan var ég við athöfn í háskólakapellunni í tilefni þess að í dag eru 60 ár síðan Geirþrúður Hildur Bernhöft lauk embættisprófi í guðfræði. Það var ánægjuleg stund og býsna gaman að henni lauk með söng á baráttuljóði eftir mig. Þær eru ansi margar konurnar sem við megum þakka fyrir að hafa rutt brautina fyrir okkur hinar í þessum hefðbundnu karlafögum. Ekki svo að skilja að ég hafi notað mér það sérlega vel, eini áfanginn sem ég hef lokið er 5. stigið í söng. En ég hef svo sem auðvitað menntað mig og held að sú menntun sem ég hef sé bara nokkuð góð, a.m.k. dugar hún mér vel í vinnunni og svona í lífinu almennt.

Eftir athöfnina var ég í einstaklega góðu skapi og þá flaug mér í hug að eiginlega þekkti ég bara jákvætt og skemmtilegt fólk en svo fór ég að hugsa mig betur um og sá að það væri réttara að orða það þannig að ég umgengst bara jákvætt og skemmtilegt fólk. Auðvitað þekki ég fólk sem er hvorugt en það er eins og ég hafi ómeðvitað valið að vera ekkert að skipta mér af því. Ég hef nefnilega komist að því að það er hægt að vera jákvæð baráttumanneskja og fólk sem berst með neikvæðni hefur oft ekki erindi sem erfiði. Sem sagt, taka á neikvæðum hlutum á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

En nú er ég víst orðin einum of háfleyg og mál að hætta.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?