sunnudagur, maí 08, 2005

 

Mikið rosalega...

Mikið rosalega er gott að vera búin með prófið! Það gekk held ég nokkuð þokkalega miðað við að mér fannst ég allt í einu engan veginn nógu vel undirbúin, allavega veit ég að ég náði því - kannski hef ég bara rétt skriðið en það kemur í ljós föstudaginn 13. því þá fæ ég einkunnina og útskrifast. Það lofar auðvitað ekki góðu að það skuli einmitt bera upp á föstudaginn 13. en ég er nú ekkert voðalega hjátrúarfull - eða þannig!!!

Og mikið rosalega var gaman í afmælisveislunni og mikið rosalega tókst hún vel. Gestirnir voru frábærir allir sem einn, enda bauð ég bara skemmtilegu og jákvæðu fólki. Barnabörnin fóru á kostum með skemmtiatriði, Ingi bróðir flutti mér ljóð, Jón hélt bráðskemmtilega ræðu með limru-ívafi, fleiri tóku til máls og mærðu mig og svo sungu þær Hanna Björk og Anna Sigga og voru hreint út sagt æðislegar. Endirinn var svo þegar Gospelsystur komu og tróðu upp með meiri söng. Ég var eiginlega klökk allt kvöldið yfir því hvað fólk var gott við mig og er satt að segja farin að trúa því að ég sé alls ekki sem verst. Nú er borðstofuborðið hjá mér þakið gjöfum, skartgripum, vínflöskum, snyrtivörum, sjölum og silkislæðum, svo ekki sé minnst á „skáldagjöfina“ frá vinkonum mínum í Kvennakirkjunni. Frábært að allt tókst svona vel.

En nú er ég sem sagt komin með hálsbólgu, fann fyrir henni þegar ég vaknaði í gær og söngæfingin í gærmorgun hafði alls ekki jákvæð áhrif og svo fór ég að syngja með hópunum við fermingu í Kvennakirkjunni. Það var yndisleg stund eins og alltaf, en hálsinn á mér var búinn að vera þegar ég loks kom heim um fimmleytið og mér leið virkilega illa í gærkvöldi. Var heldur skárri í morgun og hef skánað meira eftir því sem liðið hefur á daginn. Sat við tölvuna og vann þýðingarnar sem ég hafði látið sitja á hakanum svo núna er ég nokkurn veginn á réttu róli. Vona bara að ég verði orðin alveg góð á morgun því það er vissulega margt sem ég þarf að klára.

En nú verð ég aðeins að nöldra. Ég sá auglýsingu í sjónvarpinu þar sem talað er um skynsama hreyfingu. Ef til er skynsöm hreyfing er þá ekki líka til heimsk hreyfing? Hvað er fólk eiginlega að hugsa, þekkir það ekki muninn á orðunum skynsöm og skynsamleg? Ekki veit ég hvað hann faðir minn hefði sagt hefði hann lifað að sjá þetta. Er ekki krafist lágmarkskunnáttu í íslensku af fólki sem vinnur að auglýsingagerð? Ég bara spyr.
Best að hætta núna, ég er farin að nöldra allt of mikið.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?