sunnudagur, maí 22, 2005

 

Nú blöskrar mér!

Ég er svo yfir mig hissa á þessu ættleiðingarmáli. Er nokkuð vit í því að hafna umsókn konu sem er í alla staði afar hæfur uppalandi á þeim forsendum að hún sé yfir kjörþyngd? Hvað er eiginlega að þessu samfélagi okkar, er útlitsdýrkunin farin að ná inn í ráðuneytin líka? Mig langar þess vegna að segja frá foreldrum mínum og æsku. Ég fæddist þremur mánuðum áður en móðir mín náði 45 ára aldri og nokkrum mánuðum síðar fyllti faðir minn 51 ár. Aukinheldur var móðir mín alla tíð vel yfir kjörþyngd og það er ekkert vafamál að nú á dögum hefði þeim örugglega verið neitað um að ættleiða barn. Ég get samt ekki ímyndað mér ástríkari eða umhyggjusamari foreldra, þau studdu mig alla tíð með ráðum og dáð og fylgdust grannt með því sem ég aðhafðist. Þau voru bæði heilsuhraust og náðu háum aldri, faðir minn lagðist til svefns kvöldið fyrir 87. afmælisdaginn sinn og vaknaði ekki að morgni og móðir mín lést hálfum mánuði áður en hún varð 86 ára eftir stutta banalegu. Ég finn ekki til þess að hafa skaddast af því að alast upp hjá svo fullorðnum foreldrum og móður sem var æði mikið þyngri en til væri ætlast í dag. Ég vona miklu fremur að mér hafi kannski tekist að endurgjalda þeim einhvern smáhluta af allri umhyggjunni.
Annað var það nú ekki sem ég ætlaði að segja hér í dag, ég vildi bara óska að ég gæti lagt konunni lið í baráttunni. Ég sá í blaði að þau „frægu og feitu“ ætla að hjálpa henni, kannski ég hafi samband við eitthvert þeirra þótt ég sé ekki fræg en kannski pínulítið yfir kjörþyngd!

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?