laugardagur, maí 14, 2005

 

Vorið er komið og grundirnar gróa!

Vorið er komið og grundirnar gróa, það er allt að springa út í kringum okkur og krakkakrílin spretta fram í rauðum, bláum, grænum og gulum peysum og minna helst á lítil blóm. Og svo fékk ég einkunnina úr stigsprófinu í gær, hún var alveg þokkaleg eins og ég bjóst við og ég get verið alveg hæstánægð með hana. Eins og ég var nú taugaóstyrk á prófinu, gleymdi texta og allt hvað eina, sem hefur þó ekki komið fyrir áður. Og svo fékk ég frábæra umsögn bæði hjá Hönnu Björk og Sigríði Ellu prófdómara. Loksins hef ég náð einhverju markmiði sem ég hef sett mér, ligga, ligga lá!
En ég er auðvitað ekki laus við kvefpestina, hélt að ég myndi hreint krepera á fyrri tónleikunum á fimmtudagskvöldið en tókst einhvern veginn að hressast og var þokkaleg á þeim seinni. Tónleikarnir tókust alveg frábærlega, sérstaklega þeir seinni og Seth Sharp var alveg hreint frábær, enda átti ég ekki von á öðru. Auk þess að vera gullfallegur og syngja eins og engill hefur hann líka svo afbragðsgóða og þægilega nærveru að það er ekki hægt annað en hrífast af honum. En nú er sem sagt komin hvítasunna og ég hafði hugsað mér að nota hana bara í vinnu, en svo var ég að uppgötva áðan að mig vantar handrit að myndum sem ég er með fyrir Skífuna (eða Dag Group eins og hún heitir núna) og ég nennti ekki upp á Stöð 2 (eða 365 ljósvakamiðla) á föstudaginn að tæma úr hólfinu mínu svo ég hef ekki mikið að gera þessa tvo daga, er samt með fáeinar kápuþýðingar sem ég þarf að drífa af en annars neyðist ég víst til að hvíla mig. Ætli það sé ekki bara hið besta mál. Annars kemur fjölskyldan hér syðra í lambalæri annað kvöld og þá verður áreiðanlega heilmikið fjör ef ég þekki mitt fólk rétt.

Mikið finnst mér leiðinlegt þegar ég finn að fólk er að látast vera annað eða öðruvísi en það er í raun og veru. Líklega er það vegna þess að það telur sig ekki nógu gott eða fínt eða flott en mikið er ég hrædd um að því líði illa og fari á mis við margt út af þessari vitleysu. Og yfirleitt er þetta líka fólk sem er gersneytt öllum húmor fyrir sjálfu sér og ekki bætir það úr skák.
Þá er það ekki fleira í bili.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?