mánudagur, júlí 25, 2005

 

Endalaus veðurblíða!

Við fórum að heimsækja barnabörnin á Úlfljótsvatn á fimmtudaginn. Vorum smástund að finna Englabossann, en Drekinn sást hvergi fyrr en kallað var til kvöldverðar, hafði verið upptekinn í alheimsþorpinu sem ku vera afbragðsskemmtilegt, allavega ætlaði hann í það aftur daginn eftir. Skátarnir skemmta sér greinilega vel þarna og hafa meira en nóg að gera. Frændsystkinin voru ekkert búin að hittast svo það var ágætt að við gátum komið þeim saman. Drekinn hafði að orði að það væri hreint merkilegt hvað hægt væri að gera margt skemmtilegt úr orku jarðar og Englabossanum fannst geðveikt fjör.
Á föstudaginn komu Danni og Kári og gistu hjá okkur eina nótt áður en haldið var á ættarmótið, höfðu verið á feðgaferð og tjaldað á Hvammstanga nóttina áður en ákváðu að fá að sofa í rúmi næstu nótt, áður en haldið yrði í Fannahlíð. Við hjónin keyptum svo í matinn fyrir ferðina og ég eldaði 9 lítra af gúllassúpu til að koma á óvart með í hádeginu á sunnudaginn. Og auðvitað var helgin svo frábær! Samkoman tókst með ágætum eins og alltaf, frekar fámennt og góðmennt, en samt var það svo að 38 skrifuðu sig í gestabókina. Það er auðvitað ekkert miðað við að í fyrra voru það 60, en núna vantaði líka heilan ættlegg og margir voru erlendis og sumir uppi á fjöllum eins og gengur og gerist. En svo mætti líka fólk sem hefur bara einu sinni komið áður og ætlar að láta það ganga í sínum ættlegg að fólk viti ekki af hverju það sé að missa og mana það til að fjölmenna að ári. Veðrið var heldur ekki af verri endanum svo dásamlegt að stundum varð maður að fara inn til að kæla sig. Svo var auðvitað hlegið og masað og grillað og drukkið (allt samt í mesta hófi) og allir nutu sín í botn. Á sunnudagsmorguninn vaknaði ég kukkan níu og gat ómögulega sofnað aftur, það var svo bjart í tjaldinu. Þegar ég fór að kvarta undan því að geta ekki sofið lengur var mér vinsamlega bent á að ég hefði reyndar sofið á mitt græna í átta tíma og þar með hætti ég nöldrinu. Um morguninn var niðaþoka, það sást ekki í bæina handan við vatnið þegar ég vaknaði og eiginmaðurinn (sem vaknaði klukkan hálfsjö, fór inn í hús, lagaði bæði te og kaffi og fékk sér morgunmat og las síðan Harry Potter í ró og næði) sagði að ekki hefði sést niður að vatni þegar hann fór á stjá. En svo hvarf þokan eins og hendi væri veifað og sólin hélt áfram að grilla okkur á fullu. Það var hreinlega of heitt til að fara í gönguferð eða yfirleitt gera nokkuð annað en að dóla sér í leti. Þegar þeir sem gist höfðu á staðnum höfðu gætt sér á gúllassúpunni minni í hádeginu (hún kláraðist og fékk frábæra dóma) var tekið til í húsinu, vaskað upp og gengið frá. Margar hendur vinna létt verk og um tvöleytið höfðu öll tjöld og tjaldvagnar verið tekin niður og við skelltum í lás á eftir okkur.
Við hjónakornin fórum svo í heimsókn til vinkonu okkar í bústaðinn hennar í Skorradalnum og þar sátum við á „stærsta palli á Íslandi“ og héldum sólbaðinu áfram. Líklega höfum við OD-að af súrefni af því í gærkvöldi þegar heim var komið vorum við dauðþreytt. Ég hálfdottaði fyrir framan sjónvarpið og drattaðist svo inn í rúm fyrir miðnætti og að sjálfsögðu svaf ég til klukkan níu í morgun!
Annað kvöld fer ég svo í fimmtugsafmæli ágætrar vinkonu. Þetta er svo ungt!

P.S. Í kvöld steikti bóndinn handa mér kjúklingaleggi sem voru snæddir með fersku grænmeti og afganginum af kartöflusalatinu eftir ættarmótið.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?