laugardagur, júlí 02, 2005
Leti og aftur leti
Ég er alveg ótrúlega löt þessa dagana, kem eiginlega engu í verk. Svo er ég að þýða mynd sem er vægast sagt stórundarleg og með texta á við tvær venjulegar myndir þótt hún sé bara í venjulegri lengd. En vonandi klára ég hana á mánudaginn, mig langar að taka mér alveg frí á morgun. Hvað sagði ég ekki um letina? Annars hefur verið virkilega gaman undanfarna daga svo letin á sér kannski eðlilega skýringu. Danni og Gulla eru hérna með strákana svo það voru fjörugar samræður (og rökræður) við matarborðið í gærkvöldi. Svo fóru þeir feðgar ásamt Degi á War of the Worlds klukkan ellefu í gærkvöldi en við Gulla og Kári vorum hér heima að spjalla þar til við vorum farnar að geispa nokkuð mikið og komum okkur í svefn. Í dag er ég svo búin að fara tvisvar til Davíðs að gefa Kisu og kettlingunum hennar og þarf að fara einu sinni á morgun því hann fór með sín börn í útilegu og kemur heim annað kvöld. Þeir hittast því ekki í þetta sinn bræðurnir.
Annars er ég í hálfgerðum vanda með tölvupóstinn minn, reyndar algerum. Við hjónin erum nefnilega að flytja okkur yfir til Hive og ég er að fá ADSL tengingu. Það tekur víst fimm virka daga frá því að við sóttum um og þar til við fáum tenginguna og ég var aðeins of fljót á mér að segja upp hjá Og Vodafon og biðja um að pósturinn minn yrði áframsendur til Hive svo nú fæ ég engan póst og ég sé í anda mörg hundruð tölvubréf safnast upp í hólfinu mínu hjá Hive en mér er ekki nokkur leið að finna á síðunni hjá þeim hvernig ég get skoðað hann. Samt er ég bæði komin með netfang þar og lykilorð. Vona bara að við fáum tenginguna ekki seinna en á miðvikudaginn en þá verða komnir fimm virkir dagar.
Ég þarf að fara að læra betur á blogger svo ég geti sett inn myndir með pistlunum mínum - verð hreinlega að finna mér tíma í það. En vonandi komumst við hjónakornin fljótlega í smáferðalag. Mig er farið að klæja í lófana eftir að tjalda og anda að mér svolitlu sveitalofti - þarf vonandi ekki að bíða eftir ættargleðinni í Fannahlíð 23. júlí, mér finnst ansi langt þangað til.
Ég hafði líka hugsað mér að nöldra eitthvað en nú man ég alls ekki út af hverju svo ég held að ég bara sleppi því í þetta sinn. Það hefur varla verið merkilegt fyrst ég man það ekki.
Annars er ég í hálfgerðum vanda með tölvupóstinn minn, reyndar algerum. Við hjónin erum nefnilega að flytja okkur yfir til Hive og ég er að fá ADSL tengingu. Það tekur víst fimm virka daga frá því að við sóttum um og þar til við fáum tenginguna og ég var aðeins of fljót á mér að segja upp hjá Og Vodafon og biðja um að pósturinn minn yrði áframsendur til Hive svo nú fæ ég engan póst og ég sé í anda mörg hundruð tölvubréf safnast upp í hólfinu mínu hjá Hive en mér er ekki nokkur leið að finna á síðunni hjá þeim hvernig ég get skoðað hann. Samt er ég bæði komin með netfang þar og lykilorð. Vona bara að við fáum tenginguna ekki seinna en á miðvikudaginn en þá verða komnir fimm virkir dagar.
Ég þarf að fara að læra betur á blogger svo ég geti sett inn myndir með pistlunum mínum - verð hreinlega að finna mér tíma í það. En vonandi komumst við hjónakornin fljótlega í smáferðalag. Mig er farið að klæja í lófana eftir að tjalda og anda að mér svolitlu sveitalofti - þarf vonandi ekki að bíða eftir ættargleðinni í Fannahlíð 23. júlí, mér finnst ansi langt þangað til.
Ég hafði líka hugsað mér að nöldra eitthvað en nú man ég alls ekki út af hverju svo ég held að ég bara sleppi því í þetta sinn. Það hefur varla verið merkilegt fyrst ég man það ekki.