miðvikudagur, júlí 20, 2005

 

Öllum getur ofboðið!

Ég tel mig yfirleitt mestu geðprýðismanneskju og læt fátt á mig fá, en ég verð samt að viðurkenna að mér ofbauð eiginlega í dag þegar ég var að koma úr klippingu og lenti á eftir bíl með gömlum (hundgömlum) hjónum sem ók á 30 á Nesveginum. Fyrst fannst mér eiginlega sniðugt hvað karlinn var lengi að taka beygjuna af Hofsvallagötu inn á Nesveginn, en þegar ég neyddist svo til að dóla á eftir honum á innan við 30 og það mikil umferð á móti að ég gat ekki tekið fram úr hætti mér að vera hlátur í hug. Auðvitað var svo komin heilmikil bílaröð á eftir okkur og mér fannst verst að þetta var svo lítill bíll að minn skyggði örugglega alveg á hann og ég var farin að finna hvernig allir hinir bílstjórarnir blótuðu mér í sand og ösku. Ég var því mjög fegin þegar ég gat beygt inn á Tjarnarstíginn og komist heim til mín. En ég tók gleði mina þegar heim var komið og ég gat horft á The Antic Road Show á BBC. Já, ég viðurkenni það, ég horfði á sjónvarpið í góða veðrinu í dag, bæði The Antic Road Show og Bargain Hunt. Annars var ég líka þrældugleg að vinna og svo fór ég eins og áður segir til Jógvans í klippingu og strípur og er núna létt flippuð til hársins. Nema hvað? Ég var nú einu sinni kölluð amma pönk. Hvernig amma ætli ég sé núna? Fæ kannski svar við því á morgun þegar við förum að heimsækja tvö barnabarnanna á Landsmót skáta á Úlfljótsvatni. Læt þetta gott heita í bili.

P. S. Sauð lax í kvöldmatinn og hann bragðaðist dásamlega með nýjum kartöflum, fersku salati og smjöri.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?