föstudagur, júlí 08, 2005

 

Margur hefur verið barinn...

Margur hefur verið barinn fyrir það eitt að lenda í slæmum félagsskap og þannig fór fyrir Bretum núna. Það er auðvitað skelfilegt þegar svona nokkuð gerist og ég er ekki að mæla því bót, en er þetta ekki einfaldlega heimatilbúinn vandi? Mér er líka spurn hversu margir óbreyttir borgarar deyja og limlestast daglega í tilgangslausu stríði í Írak, skyldi mannfallið þar ekki vera orðið talsvert mikið? Fyrir nú utan öll börnin sem dóu af því þau fengu ekki lyf vegna viðskiptabannsins. Fengu ekki lyf vegna þess að hugsanlega væri hægt að nota þau í efnavopn. Og Madeline Albright dirfðist að segja að jafnvel þótt 50.000 börn myndu deyja á dag væri viðskiptabannið nauðsynlegt! Ég hafði talið hana nokkuð skynsama manneskju þar til ég heyrði hana segja þetta og eftir það gat ég ekki litið hana réttu auga og yfirleitt slökkti ég á sjónvarpinu eða hætti að horfa þegar hún birtist á skjánum. En sem betur fer heyrist lítið til hennar núna. Finnst ykkur svo undarlegt að íbúar þessa heimshluta séu fullir haturs út í Vesturlandabúa? Ekki held ég að ég myndi elska þá sem murkuðu lífið úr fjölskyldu minni. Og svo finnst mér barnalegt að halda að hægt sé að sigra óvin sem ekki óttast dauðann.
Annars held ég að nú sjáist best munurinn á þjóðarsál Breta og Bandaríkjamanna. Ég horfði öðru hvoru á Sky News og BBC í gær og fannst vandað til fréttaflutnings - engar hrollvekjandi myndir af limlestu fólki heldur fyrst og fremst sagt frá því hvernig björgunarstörf gengu. Og svo sá ég hvar yfirmenn lögreglu, björgunarliðs, lesta- og strætisvagna og fleiri sátu fyrir svörum og það bar ekki á neinum æsingi, hvorki hjá þeim né fjölmiðlafólkinu sem spurði þá. Eitthvað annað en sjónvarp frá Bandaríkjunum eftir 11. september.
Mér skilst að Dönum og Ítölum hafi líka verið hótað svo nú er spurningin hvenær röðin kemur að okkur. Ætli það komi ekki út á eitt hvort það eru „alvörudátar“ eða „áhugahermenn“ sem við sendum á svæðið.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?