laugardagur, júlí 16, 2005
Undarleg þessi þjóðarsál
Ég var að ráfa um vefinn og sjá hvað bloggarar eru að hugleiða þessa dagana og þá datt mér í hug að þetta er ekki ólíkt Þjóðarsálinni - hræðilegum útvarpsþætti sem eitt sinn var á dagskrá RUV og fólk gat hringt í til að segja skoðanir sínar á öllu sem hugsast gat. Ég varð meira að segja einu sinni svo fræg að sitja þar fyrir svörum! Mér þykir nú lúmskt gaman að svona nöldri en það er hreint ótrúlegt hvað fólk getur verið að kvarta og skammast út af öllu mögulegu sem það getur svo ekkert gert við. Heyrði frábæran pistil um slíkt hjá syni mínum í gær á Talstöðinni. Kannski líður fólki samt betur að koma óánægju sinni á framfæri - það er að minnsta kosti ekki að básúna hana í útvarpið, en er ekki svolítið undarlegt að skrifa svona sjaldan um ánægjulega hluti? Ég hitti til dæmis bráðskemmtilega konu úti í Nóatúni í morgun. Þannig var að við hjónakornin ætluðum að kaupa nýjar, íslenskar kartöflur, en þær sáust því miður hvergi. Við eftirgrennslan kom í ljós að það var svo nýbúið að opna verslunina að verið var að koma grænmetinu fram í búð svo við ákváðum að geyma kartöflurnar þar til við værum búin að ná í allt hitt. Þegar við svo komum á kartöflustaðinn var þar fyrir ansi hreint röskleg ung stúlka við stórt bretti af alls kyns káli og öðru grænmeti auk kartaflanna og hún vippaði þungum pokum til og frá eins og ekkert væri. Þarna álengdar stóð eldri kona (líklega svona um áttrætt) og henni varð að orði að þetta væri nú ekkert kvenmannsverk. Sú yngri hélt það nú, þetta væri bara frábær líkamsrækt og við þrjár fórum eitthvað að spjalla á meðan unga konan tók utan af kartöflupoka fyrir okkur. Sú gamla talaði svona svolítið með dönskum hreim og dönskum slettum, áreiðanlega dönsk en búin að búa hér í ótalmörg ár - hefur trúlega gifst íslenskum námsmanni fyrir miðbik síðustu aldar. Minn ektamaki var líka stimamjúkur við hana, rétti henni plastpoka til að tína kartöflurnar í og annan til að hafa á höndinni og hún þakkaði okkur svona líka vel fyrir. Sem sagt þessi endir á ósköp venjulegri verslunarferð hlýjaði mér um hjartaræturnar. Gaman að til skuli vera svona elskulegt og jákvætt fólk.