þriðjudagur, júlí 19, 2005
Þvílík himnablíða!!!
Loksins, loksins kom góða veðrið og það er spáð svona blíðu fram yfir helgi. Ég var nú eiginlega alveg viss um að það yrði frábært veður á ættarmótinu um helgina, ég er farin að hlakka svooo til að tjalda og auðvitað líka til að hitta allt skemmtilega fólkið sem væntanlega mætir. Reyndar er Imma frænka alvarlega veik svo það mætir trúlega enginn úr þeim ættlegg, enda aðeins hennar fólk á landinu - við verðum bara að vona það besta fyrir Immu hönd og senda henni góðar og hlýjar hugsanir. Hún sem aldrei hefur viljað missa af ættarmótinu, meira að segja þegar það bar upp á fertugsamælið hennar mætti hún og hélt upp á afmælið með okkur. Við hjónakornin munum mæta fyrst upp eftir og opna húsið og taka á móti fólkinu - allt í lagi með það. Ég talaði við húsvörðinn áðan að athuga hvort við ættum húsið ekki pottþétt bókað og hún sagðist nú halda það, þetta væri „heilög helgi“ og það kæmi ekki til greina að neinir aðrir fengju það á þessum tíma. Gott að vera orðnir fastir kúnnar, enda er þetta fimmta árið sem við erum í Fannahlíð. Ég get ekki sagt að mér þyki það leiðinlegt, verð eins og barn þegar ég kemst á heimaslóðirnar. Það besta við þetta er að það þarf ekkert að skipuleggja neitt, annað hvort mætir fólk eða mætir ekki og þeir sem mæta koma með góða skapið og annað þarf ekki. Ligga, ligga lá! Á morgun fer ég í klippingu til Jogvans - hann er hreinn snillingur í að gera kerlur eins og mig elegant og fínar eins og kvikmyndastjörnur!