mánudagur, ágúst 01, 2005

 

Allt tekur enda

Nú er Rauðhyltingabók um það bil að líta dagsins ljós, á morgun fara Sævar og Skúli í prentsmiðjuna og mér skilst að ritið fari í umbrot eftir viku eða svo. Ég er yfir mig ánægð að vera búin að safna myndum og velja þær sem eiga að vera með umfjölluninni um mömmu og Jón frænda. Svo vona ég auðvitað að þau brosi í kampinn í uppheimum og séu ánægð með stelpuna. Ég á reyndar eftir að fá æskumynd af þriðja bróður en hana fæ ég í síðasta lagi á sunnudaginn kemur. Í dag ók ég upp á Skaga (held að ég hafi ekið of hratt í göngunum og fái bráðum sekt) og ræddi við fyrsta bróður og mágkonu. Féll þessa líka fínu mynd af honum, hugsanlega fermingarmynd, sem sómir sér vel í ritinu. Nú er ég bara hrædd um að ég sé komin með of mikið af myndum með kaflanum um mömmu, en þá get ég allavega kippt tveimur út. Og er ekki alltaf gaman að skoða myndir um leið og maður les bækur? Þegar heim var komið mundi ég auðvitað eftir helling sem ég ætlaði að ræða við bróður og spyrja út í varðandi gamlar myndir sem ég er með í minni vörslu, en það verður bara að bíða betri tíma. Hvað sem öðru líður er ég svo hæstánægð með sjálfa mig að nú sit ég hér við tölvuna með hvítvínsglas (heimilisframleiðsluna) og þykist eiga heiminn.
Verslunarmannahelginni er lokið og í mínum huga merkir það að sumarið sé að verða búið. Ég held að það sé nokkuð ljóst að við förum ekki í tjaldferð á Strandirnar úr þessu, það hefði viðrað til þess í síðustu viku en þá vorum við hjónakornin þrælupptekin bæði tvö og nú er aldrei að vita hvernig veðurhorfur gerast. Við eigum þó eftir að fara með Núma á Norðurlandið, ef hann vill fara með gamla settinu, annars förum við bara tvö ein, og svo eigum við auðvitað eftir að fara í lúxusinn á Búðum eins og er að verða árlegur viðburður.
Ég ætlaði að nöldra út af einhverju, en eins og venjulega er ég búin að gleyma hvað það var. Það hlýtur að rifjast upp fyrr eða síðar. Ekki meira að sinni.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?