fimmtudagur, ágúst 11, 2005
Heim er ég komin
Fórum á Norrrðurlandið á mánudaginn og snerum heim á ný í dag. Höfðum það alveg súperfínt hjá Daníel og co. á Akureyrinni. Gerðum víðreist eftir megni, á þriðjudaginn skoðuðum við Smámunasafn Sverris Hermannssonar (nei, ekki þess Sverris) sem er alveg stórkostlega skemmtilegt. Eftir það lá leiðin í Jólagarðinn og um kvöldið tókum við þátt í kertafleytingu á tjörninni þeirra Akureyringa. Áður höfðum við fylgst með siglingaæfingu hjá Degi sem brunaði fram og til baka um Pollinn eins og ekkert væri. Blautbúningurinn sem við keyptum í Europris á sunnudaginn og tókum með norður smellpassaði og kom að góðum notum. Veðrið var leiðinlegra á miðvikudaginn, blankalogn en rigning öðru hvoru. Heitir það ekki rigning með köflum? Eftir hádegið var farið út í Laufás til að skoða gamla bæinn og þar fengum við okkur þetta líka ágæta eftirmiðdagskaffi áður en haldið var áleiðis yfir í Vaglaskóg. Þar var alveg uppstytta og við fórum í hressandi skógargöngu áður en haldið var áfram til Akureyrar. Um kvöldið fórum við í kaffi til þriðja bróður og þangað komu líka fyrsti bróðir og mágkona ásamt syni. Þar áttum við hið skemmtilegasta spjall og eiginlega var ákveðið að stefna að því að fara á Íslendingadaginn á Gimli um verslunarmannahelgina 2006. Ég lofaði víst að fara að tæla fólk til þátttöku í því, það væri nú annað hvort ef Rauðholtskynið fjölmennti ekki!
En talandi um Rauðholtskynið, ég fékk sorgarfréttir þegar heim var komið. Imma frænka lést í morgun. Elsku stelpan svona allt, allt of fljótt. Hún sem var alltaf svo hress og skemmtileg. Ég hitti mömmu hennar í Hagkaup og verð að segja að ég dáist að því hvað hún stendur sig vel. Ég gat ekkert gert annað en faðmað hana að mér og sagt hvað mig tæki þetta sárt.
Nú er ég of hrygg til að segja meira að sinni.
En talandi um Rauðholtskynið, ég fékk sorgarfréttir þegar heim var komið. Imma frænka lést í morgun. Elsku stelpan svona allt, allt of fljótt. Hún sem var alltaf svo hress og skemmtileg. Ég hitti mömmu hennar í Hagkaup og verð að segja að ég dáist að því hvað hún stendur sig vel. Ég gat ekkert gert annað en faðmað hana að mér og sagt hvað mig tæki þetta sárt.
Nú er ég of hrygg til að segja meira að sinni.