sunnudagur, ágúst 21, 2005

 

Menningarnótt

Þá er menningarnótt afstaðin. Það var úr svo mörgu að velja að flest fór fyrir ofan garð og neðan hjá mér. Við hjónakornin mættum í bæinn um tvöleytið til að vera við opnun sýningar Sólveigar Hólmarsdóttur hjá Sævari Karli (hún er alveg meiriháttar mögnuð). Þegar eiginmaðurinn var búinn að kvikmynda og ljósmynda öll herlegheitin í bak og fyrir röltum við okkur niður í bæ að líta á mannlífið. Auður Haralds kallar víst Lækjartorg vindasamasta torg í veröldinni og ég held svo sannarlega að það sé alveg rétt. Við vorum svo klók að fara á Segafredo og sitja þar við borð sem var eiginlega bæði úti og inni - ljómandi gott fyrirkomulag að öðru leyti en því að fólk virtist almennt halda að við sætum í dyrunum og ég var orðin svolítið fúl að þurfa í sífellu að benda því á að það væru aðrar dyr á staðnum. Þetta lofaði allt saman góðu en eftir að hafa litið inn á nokkra staði héldum við aftur heim. Ég mætti svo í Domus Vox kl. 18.30 þar sem við sungum stanslaust í tvo tíma. Gospelsystur mættu alls ekki vel en það var vel mætt úr Vox Feminae og nokkuð vel úr Stúlknakór Reykjavíkur. Eftir sönginn röltum við fimm saman áleiðis í miðbæinn - sáum að klukkan tíu átti að hefjast „dúndrandi New Orleans“ stemming á Kaffi Vín á Laugavegi 23 en þegar að Laugavegi 23 kom sáust þar ekki nokkur merki um kaffihús svo við röltum okkur áfram. Á móts við Bankastrætið var ösin svo mikil að við gáfumst upp og löbbuðum upp eftir aftur og komum auga á laust borð á Tuttugu og tveimur og settumst þar inn smástund. Gerðum svo aðra tilraun til að komast í bæinn sem tókst stórslysalaust en þá vorum við reyndar bara þrjár eftir. Hinar tvær sem með mér voru ætluðu að ná í restina á tónleikunum við höfnina en ég ákvað að rölta upp á Landakotshæð og biðja minn heittelskaða að sækja mig þangað. En þegar þangað var komið fannst mér miklu sniðugra að labba bara alla leið heim. Auðvitað fór svo að rigna á mig og þegar ég var komin á Nesveginn var komin hellirigning. Ég lét það samt ekki aftra mér frá því að standa þar alein og horfa á flugeldasýninguna svo ég var eins og hundur af sundi dreginn þegar ég kom heim. Fór síðan snemma í rúmið og svaf frameftir í morgun.
Við komumst ekki til að horfa á Dag Arinbjörn keppa í siglingum í gær, en ég reyndi að hringja í hann gærkvöldi til að athuga hvernig honum hefði gengið en fékk bara samband við talhólfið hans. Svo hringdi vinurinn þegar ég var á gangi á Landakotshæðinni og haldið þið ekki að hann hafi lent í öðru sæti á mótinu. Sem sagt, ég er amma næstbesta Optimistasiglara Íslands í hans aldursflokki! Hann var auðvitað mjög glaður og ánægður með frammistöðuna.
Þegar á allt er litið var þetta hin besta menningarnótt en af hverju er þetta ekki frekar kallað menningardagur þar sem dagskráin stendur í tólf tíma, frá kl. 11 að morgni til kl. 23 að kvöldi?
Ég bara spyr.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?