þriðjudagur, ágúst 02, 2005

 

Merkileg reynsla

Ég fór í Kringluna í dag og gerði ítrekaðar tilraunir til að eyða peningum en tókst ekki. Yfirleitt tekst mér það nokkuð áreynslulaust svo þetta er alveg ný reynsla fyrir mig. Þegar ég hafði gengið þarna um í smátíma og litið inn í nokkrar búðir hringdi ég í Ellu og bað hana að hitta mig, en það var sama þótt við værum tvær, mér tókst ekki að kaupa neitt svo við enduðum heima hjá Ellu og drukkum kaffi og svo keyrði hún mig heim. Auðvitað hefði ég frekar átt að fara á Laugaveginn, þar er yfirleitt eitthvað að finna sem mann vantar. Nú tala ég eins og ég þurfi nauðsynlega að kaupa eitthvað, en það er svo sem ekki alveg rétt. Reyndar myndi mig vanta penar, svartar buxur fyrir veturinn - buxur sem ég get gengið í hversdags en samt verið pínulítið fín. Hver veit nema ég láti vaða á Laugaveginn á morgun, þá þarf ég hvort sem er að fara niður í bæ að borga skattinn. Það er ekkert fleira sem mér liggur á hjarta núna svo ég læt þetta gott heita.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?