mánudagur, október 31, 2005

 

Ekki svo slæmt líf

Það eru búin að vera mikil rólegheit hér á Tjarnarbóli. Reyndar er það bara alveg ljómandi gott. Á laugardaginn leit Þorri inn í kaffi og var kyrrsettur hér í kvöldmat, huggulegheit og spjall. Eiginmaðurinn eldaði þessar líka góðu kjúklingabringur fylltar með feta-osti og ólífum og alveg rosalega góðri sósu - namm. Þetta var sem sagt alveg indæll dagur og kvöld og þrátt fyrir allt þetta náðum við líka að þrífa sameignina og ég kláraði þáttinn sem ég var byrjuð á. Duglegir krakkar við hjónakornin. Á sunnudaginn var farið í Sundlaug Seltjarnarness, í síðasta sinn í bili því hún verður lokuð til 1. apríl vegna breytinga og viðbygginga. En þá verður hún líka flott í vor þegar hún verður opnuð aftur. Eftir hádegið fór sunnudagurinn bara í vinnu og það var býsna gott að horfa á ísraelska kvikmynd á Ruv um kvöldið. Yfirleitt horfi ég ekki á kvikmyndir í sjónvarpi en það var ágætt að sjá eitthvað annað en skothríð og hasar. Annars er ég viss um að margir hafa blótað henni í sand og ösku. Það er eins og sumum þyki ekkert varið í bíómyndir nema það sé nóg af blóði og óþverra. Þessi ísraelska mynd var svo sem ljót í sjálfu sér en það var samt einhvern veginn öðruvísi ljótleiki.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?