sunnudagur, nóvember 27, 2005

 

Laugavegsrölt

Það viðraði vel á okkur Ellu á Laugaveginum í gær. Byrjuðum á að fara inn í glingurbúð rétt neðan við Snorrabrautina og spurðum hvort þetta væri alveg glæný búð. „Nei,“ sagði afgreiðslustúlkan, „hún hefur verið hér í tvö ár.“ Við afsökuðum okkur með því að gatan hefði svo lengi verið lokuð á þessum kafla. Ekki keypti ég neitt þarna en sá hins vegar skrambi flotta ökklaskó á þrusugóðu verði. Hver veit nema ég líti þangað aftur við tækifæri. Þegar við komum út voru hundaeigendur á Laugavegsgöngu og þarna sá ég einhvern þann flottasta og fallegasta hund sem ég hef séð. Írskan úlfhund, fallega gráan og á stærð við nokkurra vikna folald. Þetta var tík og svo einstaklega blíð og falleg að ég mátti til með að óska eigandanum til hamingju með þennan glæsilega hund. Svo örkuðum við niður eftir og litum inn í hinar og þessar verslanir án þess að hreyfa kortin en sáum auðvitað margt sem hefði verið gaman að fara með heim. Þegar kom að Villtum og vandlátum varð ég auðvitað að líta inn. Verslunin er að hætta og allt selt með 50% afslætti. Ég keypti ljósar hörbuxur sem ég tímdi ekki að kaupa í sumar og yndislegan bol frá Earth Collection. Ég hugsa jafnvel að ég líti inn aftur seinna í vikunni og skoði úrvalið betur, ef það verður þá ekki allt saman selt. Hvað geri ég þegar uppáhaldsbúðinni minni verður lokað?
Við enduðum svo hjá Völu í Marimekko og svo fórum við þrjár út á Jómfrú þar sem við Ella fengum okkur purusteik með tilbehör, en Vala kvaddi eftir eitt hvítvínsglas. Þurfti að rjúka í faðm elskhugans! Gaman hjá henni.

Og ég held að gönguferðin hafi haft góð áhrif á fótinn á mér. Blóðtappinn er næstum horfinn en ég er samt með fjárans verk. Annars var ég búin að lofa að hætta vælinu svo ég segi ekki orð um þetta meir.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?