fimmtudagur, desember 08, 2005

 

John Lennon

Í dag eru 25 ár síðan John Lennon var myrtur. Ég man mjög vel þegar ég fékk fréttina af því í morgunútvarpinu. Við bjuggum þá í Hafnarfirði og vorum að drekka morgunkaffið og höfðum auðvitað kveikt á útvarpinu en við vorum eitthvað að tala og hlustuðum ekki beint á það sem verið var að segja þar til eldri sonur minn, sem þá var í menntaskóla, segir allt í einu: „Uss, þegið þið!“ Ég sneri mér að honum og ætlaði að segja að svona segðu vel upaldir ungir menn ekki við foreldra sína þegar hann bætir við: „Það er búið að skjóta John Lennon.“ Við steinþögnuðum auðvitað og hlustuðum agndofa á þessar fréttir og ég fór að gráta. Svo fórum við öll sitt í hvora áttina og ég ók í vinnuna mína inn í Reykjavík og var skælandi alla leiðina. Mætti svo útgrátin og þrútin um augun og man að fólki fannst skrýtið að ég skyldi gráta John Lennon svona, en ég gerði það nú samt. Hann var stórkostlegur snillingur og Bítlarnir hljómsveit sem aldrei gleymist. Af lögunum hans held ég að ég haldi mest upp á Imagine, kannski vegna textans sem á jafnt við í dag og þegar hann var saminn. Imagine all the people living life of peace.

Það er öllu gleðilegra að bróðir minn á afmæli í dag og ég vona að hann megi eiga marga, marga, ótal afmælisdaga enn þá í góðu yfirlæti. Ég hringi í hann á eftir og óska honum til hamingju.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?