þriðjudagur, janúar 10, 2006

 

Af matvinnsluvél, menningarlífi og mannvonsku

Af matvinnsluvél.
Laugardagurinn var runninn upp og við hjónakornin sátum með morgunkaffið og blöðin í eldhúsinu þegar eiginmaðurinn rak augun í auglýsingu frá Expert um útrýmingarsölu, hvorki meira né minna. Okkur datt í hug að við gætum kannski fengið þar blandara fyrir spotprís þar sem við höfum verið býsna eljusöm að blanda okkur meinholla heilsudrykki með töfrasprotanum okkar góða. Jæja, við brenndum inn í Skútuvog og jú, viti menn, sjáum við ekki blandara á útsölu fyrir liðlega fimmþúsundkall. Við vorum eitthvað að voka í kringum hann þegar starfsmann verslunarinnar bar þar að og bauð okkur blandarann með enn meiri afslætti, á þrjúþúsundkall sléttan, vegna þess að einhver fingralangur viðskiptavinur hafði hnuplað úr honum hnífnum. Okkur fannst reyndar gersamlega tilgangslaust að kaupa blandara án hnífs þótt þrjúþúsundkall væri sjálfasagt kostaboð. En sem við erum að snúa frá hillunni rek ég augun í matvinnsluvél á kr. 2.990 og spyr starfsmanninn hvort hún geri ekki alveg sama gagn og blandari. „Það fylgir henni reyndar blandari,“ segir þessi ágæti starfsmaður og við festum auðvitað kaup á henni með það sama. „Hvað ætlarðu að gera við matvinnsluvél?“ spurði eiginmaðurinn á leiðinni út í bíl. Ég var fljót til svars: „Vinna mat.“ Það verður samt að viðurkennast að enn sem komið er hefur ekki verið unnið mikið af mat, en hins vegar er búið að vígja blandarann með góðum árangri.

Af menningarlífi.
Yngri sonurinn kom frá Akureyri á laugardagskvöldið. Faðir hans náði rétt að sækja hann á flugvöllinn áður en við hjónin héldum í okkar fínasta pússi í Þjóðleikhúsið að sjá Túskildingsóperuna í boði eldri sonarins. Fín sýning að sjálfsögðu - frábær þýðing og snjallir söngtextar. Varðandi lokaatriðið var ég svolítið í vafa hvað mér fannst en nú er ég hjartanlega sammála því sem Þórdís skrifar á Kistunni: Risastórt gullslegið tippi hlýtur að vera flestum til gleði og ánægju.
Á sunnudeginum drifum við okkur svo að sjá Harry Potter en ég held að ég fari ekki að sjá fleiri Harry Potter myndir - nú er komið meira en nóg.

Af mannvonsku.
Ætli þjóðin sjái nú loksins hvers konar drullublað og sóðasnepill DV er? Ég vissi að það myndi koma að því að þeir dræpu einhvern.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?