föstudagur, janúar 20, 2006

 

Mikið var

Loksins, loksins! Við hjónakornin vorum að bóka okkur í vikuferð til Kanaríeyja (Hundaeyjanna) þann 1. febrúar. Ég hefði auðvitað getað hugsað mér að vera í hálfan mánuð, en vinna og kóræfingar leyfa ekki frekara slór og ekki má bóndinn slóra frá vatnslitum og vinnu. Ég er strax farin að hlakka til að liggja í sólinni með tærnar upp í loftið - ef það verður nógu hlýtt. Ég sá í dag að hitinn þar var 19 gráður sem mér finnst nú ekki mikið sem líður alltaf best í kringum 30 gráðurnar. En hvað um það, vika í algerri leti er einmitt það sem við þurfum bæði um þessar mundir og ef það verður sæmilega heitt er það bara bónus. Verst að ég held að Gulla og Dagur komi í bæinn á meðan við verðum úti, en við getum þá bara skilið lyklana eftir hjá Davíð og þau haft íbúðina eins og þau vilja. Við ætlum líka norður í mars að sjá Dag þreyta frumraunina sem Tommi í Kardimommubænum í Freyvangsleikhúsinu og föður hans reyndar líka sem pylsugerðarmanninn. Það er nú meiri sýningarþörfin hjá karlpeningnum í þessari fjðlskyldu - eða getur hugsast að ég sé líka svona? Það er svo sem engin furða að báðir synirnir skuli láta taka eftir sér ef þetta kemur úr báðum ættum. Nú verð ég að vinna eins og hestur til að ljúka verkefnunum sem ég verð að skila áður en ég fer í sólina, en það er líka allt í lagi að vinna eins og hestur þegar góð umbun bíður.

Annars er það að segja að á þessu heimili var enginn súr í dag og enginn súrmatur á borðum. Á bóndadaginn fær bóndinn auðvitað uppáhaldsmatinn sinn sem er ostakótelettur með spagettí og svo fékk ljúfurinn reyndar líka rauðvínslús með matnum. Móðir mín sauð alltaf hangikjöt þennan dag, ef ég man rétt. Henni fannst sjálfsagt að karlpeningurinn á bænum fengi góðan mat en ekki minnist ég þess að karlpeningurinn hafi gert neitt fyrir hana á konudaginn annað en að óska henni til hamingju með daginn. En það er kannski bara misminni - þeir hafa hugsanlega gefið henni frí frá uppvaskinu eða eitthvað og ég er viss um að það hefur verið vel þegið. Það er líka gaman að geta þess að föður mínum, sem var fæddur árið 1894, fannst ekki fyrir neðan sína virðingu að fást við uppþvottinn og ég man að þegar ég var barn og hann var að ljúka uppþvottinum á meðan mamma var að hafa sig til í einhverja uppákomu í sveitinni (afmæli eða eitthvað) að gildur bóndi rak inn nefið og sagði: „Jæja, Magnús minn, svo þú ert bara í kvenmannsverkunum.“ Pabbi lagði frá sér viskastykkið og sagðist nú ekki halda að þetta væri eitthvað minna mikilvægt starf heldur en hvað annað sem til félli á heimilinu. Þegar ég fullorðnaðist þótti mér enn vænna um pabba þegar mér skildist að þetta sjónarmið var síður en svo sjálfsagt hjá körlum af hans kynslóð.

Annað var það ekki að svo stöddu.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?