laugardagur, febrúar 11, 2006

 

Aftur á Fróni

Komum heim á miðvikudagskvöldið, hress og kát eftir frábæra viku á Kanarí. Hressleikinn fór nú samt af mér í gær þegar ég fylltist af kvefi og ónotum, en eftir þokkalegan nætursvefn held ég að þetta sé allt á réttri leið núna.
Á meðan við vorum úti fylgdist ég lítið með heimsmálunum, ég horfði aldrei á Sky eða CNN og leið bara ágætlega með það. En svo hellast helvítis fréttirnar auðvitað yfir mann þegar heim er komið - kannski þær séu ástæðan fyrir vanlíðaninni. Ég hef svo sem ekki mikið um heimsástandið að segja, en fannst kannski ritstjóra Jyllandspóstsins (dönsku útgáfunnar af DV) ástandið í heiminum vera orðið svo rólegt að það þyrfti að hrista upp í fólki? Eða var tilgangurinn að kynda undir útlendingahatri og magna upp hræðslu? Allavega hefur það nákvæmlega ekki rassgat að segja fyrir prentfrelsi á Vesturlöndum að birta mynd af Múhameð með sprengju í vefjarhettinum. Mér fannst þetta minna ískyggilega á skopmyndir af gyðingum sem ég hef séð og voru birtar í þýskum blöðum áður en heimsstyrjöldin síðari braust út og á meðan hún stóð. Hvernig væri að virða frekar trúarbrögð annarra og forðast að misbjóða trúarvitund fólks að ástæðulausu? Ég er svo sem ekki baun hrifin af ofsatrú hvort heldur sem um er að ræða kristni eða önnur trúarbrögð, en mér finnst þetta stagl um prentfrelsið eins og hvert annað yfirklór. Voru Spaugstofumenn ekki einhvern tíma teknir á teppið hjá biskupi fyrir guðlast? Ég man ekki betur.
Og haldið þið að það sé tilviljun að núna kemur Bush og segir frá hugsanlegri hryðjuverkaárás á Los Angeles? Ég hef ekki séð eða heyrt neitt frekar um hvernig komið var í veg fyrir hana og á ekki von á öðru en að rassasleikjurnar hér á Íslandi gleypi þetta athugasemdalaust. Af hverju var umheiminum ekki skýrt frá þessu strax og búið var að afstýra ódæðisverkinu? Ég bara spyr.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?