miðvikudagur, febrúar 15, 2006

 

Fjólubláir draumar

Ég ætla ekki að eyða plássi í að lýsa því hvernig mér leið á mánudaginn, líðanin var skárri í gær og nú er allt á góðri leið og ég byrja í sjúkraþjálfun á föstudagsmorguninn, meira að segja kl. 08.30 þótt ég vilji helst kúra mig undir sæng heldur lengur. Annan eins andskotans hálsríg hef ég aldrei vitað, vöðvabólga er sko ekkert grín og fjandi skítt að verða svona nýkomin úr frábæru fríi.
En, sem sagt, nú er líðanin allt önnur og í dag átti ég pantaðan tíma í klippingu og lit hjá Færeyingnum mínum, honum Jogvan á Unique, og hafi ég einhvern tíma verið töff útlits þá er ég það núna. Eftir að hafa litað mig hvíslaði hann að mér að hann hefði sett örlítinn fjólubláan lit út í þann rauðbrúna, svona til að fá skemmtilegan tón í hárið. Og ég er auðvitað stórglæsileg með þennan fjólubláa tón í hárinu og ljósa blesu í hægri vanga. Er þetta kannski ekki við hæfi svona aldraðra kvenna? Jú, ég held það nú, Ella vinkona mín er nýorðin löggilt gamalmenni og hún er yfirleitt svo rosalega töff og flott að það hálfa væri nóg. Í kvöld fer ég á kertaljósafundi í BPW-klúbbnum, það er alltaf rosalega hátíðlegt og gaman og svo verður Amal Tamimi gestur okkar og ég hlakka til að heyra hvað hún hefur að segja. Ég varð stórhrifin af ræðunni hennar á kvennafrídaginn (verkfallsdaginn) í haust. Ef einhverjum finnst orðið kertaljósafundur minna á frú Hyacinth Bucket úr sjónvarpsþáttunum frábæru er það helber misskilningur - ekki svo að skilja að ég hefði ekki þegið að vera boðin í candlelight dinner til hennar.
En nú er víst mál að fara að gera eitthvað af viti, hrúga af hreinum þvotti bíður þess að vera straujaður og rykið á stofugólfinu (og ég tala nú ekki um á húsgögnunum) er eiginlega að verða yfirþyrmandi. Og svo eru það auðvitað hin verkefnin sem ég fæ peninga fyrir að ljúka.

|

<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?